Viðskipti erlent

Fresta frekari tollum á kínversk raftæki

Tíu prósent tollur sem Trump tilkynnti um verður ekki lagður á neytendavörur eins og snjallsíma nú um mánaðamótin eins og til stóð heldur um miðjan desember.
Tíu prósent tollur sem Trump tilkynnti um verður ekki lagður á neytendavörur eins og snjallsíma nú um mánaðamótin eins og til stóð heldur um miðjan desember. Vísir/EPA
Hvíta húsið tilkynnti í dag að tollum á innflutt raftæki og ýmsar tegundir klæðnaðar frá Kína verði frestað fram í miðjan desember. Donald Trump forseti hafði hótað því að tollarnir tækju gildi um næstu mánaðamót. Hlutabréfaverð í tæknifyrirtækjum tók kipp eftir tilkynninguna.

Snjallsímar, fartölvur og leikjatölvur voru á meðal þeirra vara sem Trump ætlaði að tollleggja í viðskiptastríði sínu við kínversk stjórnvöld. Washington Post segir að Hvíta húsið hafi ekki gefið afgerandi skýringar á því hvers vegna þessar tilteknu vörur yrðu undanþegnar tollunum í bili. Tíu prósent tollur verður áfram lagður á aðrar vöru frá og með 1. september.

Fjöldi fyrirtækja hafði gert athugasemdir við boðuðu tollana og vöruðu við því að kostnaðurinn við þá lenti á neytendum og ógnuðu jafnvel tilvist fyrirtækjanna sjálfra. Með frestuninni er líklegt að verð á innfluttum vörum hækki ekki í jólaversluninni í vetur.

New York Times segir að Hvíta húsið hafi verið undir þrýstingi frá fyrirtækjum og neytendasamtökum. Hlutabréf í Apple voru á meðal þeirra sem tóku kipp við tíðindin um að vörur þeirra yrðu ekki tolllagðar strax.


Tengdar fréttir

Apple fær engar undanþágur

Bandaríkin hafa átt í tollastríði við Kína að undanförnu og ýmsir nýir tollar verið kynntir til sögunnar. Apple sótti í síðustu viku um undan­þágu frá þeim 25 prósenta tolli sem er á fimmtán íhluti sem nýttir eru til þess að framleiða tölvurnar.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×