Enski boltinn

Adrián hetjan þegar Liverpool vann Ofurbikarinn í fjórða sinn | Sjáðu mörkin

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Adrián var hetjan í fyrsta leik sínum fyrir Liverpool.
Adrián var hetjan í fyrsta leik sínum fyrir Liverpool. vísir/getty

Liverpool vann Ofurbikar Evrópu eftir sigur á Chelsea í vítaspyrnukeppni á Vodafone Park í Istanbúl í kvöld.



Liverpool vann vítakeppnina, 5-4. Adrián, sem lék sinn fyrsta leik í byrjunarliði Liverpool í kvöld, varði síðustu spyrnu Chelsea frá Tammy Abraham. Adrián samdi við Liverpool mánudaginn 5. ágúst og fékk svo óvænt tækifæri eftir að Alisson meiddist gegn Norwich City á föstudaginn. Spánverjinn var svo hetja Liverpool í kvöld.

Olivier Giroud kom Chelsea yfir á 36. mínútu eftir sendingu frá Christian Pulisic. Bandaríkjamaðurinn var í fyrsta sinn í byrjunarliði Chelsea í kvöld. Evrópudeildarmeistararnir voru sterkari aðilinn seinni hluta fyrri hálfleiks og höfðu ógnað áður en Giroud skoraði.



Roberto Firmino kom inn á sem varamaður í hálfleik og lét strax til sín taka. Á 48. mínútu var hann á undan Kepa Arrizabalaga í boltann sem barst til Sadio Mané skoraði og jafnaði fyrir Evrópumeistarana.



Kepa bjargaði meistaralega á 75. mínútu þegar hann varði skot Virgils van Dijk í slána. Fleiri urðu mörkin hins vegar ekki í venjulegum leiktíma og því þurfti að framlengja.



Á 95. mínútu skoraði Mané sitt annað mark með skoti í slá og inn. Aftur átti Firmino stoðsendinguna.



Fjórum mínútum síðar dæmdi Stephané Frappart, sem er fyrsta konan sem dæmir úrslitaleik í Evrópukeppni karla, vítaspyrnu eftir að Adrián felldi Abraham. Jorginho tók spyrnuna og skoraði af öryggi.



Chelsea var nær því að skora það sem eftir lifði framlengingarinnar en fleiri urðu mörkin ekki. Því réðust úrslitin í vítakeppni. Mörkin úr leiknum má sjá hér fyrir neðan.



 

Leikmenn liðanna skoruðu úr fyrstu níu spyrnunum í vítakeppninni. Abraham tók svo síðustu spyrnu Chelsea en Adrián sá við honum og varði.

Liverpool fagnaði því sigri í Ofurbikarnum í fjórða sinn. Aðeins Barcelona og AC Milan (5) hafa unnið þennan titil oftar en Liverpool.

Fylgst var með leiknum í beinni textalýsingu á Vísi. Hana má sjá hér fyrir neðan.




Fleiri fréttir

Sjá meira
×