Lífið

Zara Larsson og einkakokkur Eds Sheeran prófuðu sýndarveruleikaveiðar og smökkuðu svið

Vésteinn Örn Pétursson skrifar
Zara Larsson fékk að kynnast fiskvinnslu og veiðum í gegnum sýndarveruleikagleraugu.
Zara Larsson fékk að kynnast fiskvinnslu og veiðum í gegnum sýndarveruleikagleraugu. Aðsend/MATÍS
Einkakokkur Eds Sheeran, Josh Harte, og söngkonan Zara Larsson heimsóttu eftir tvenna tónleika höfuðstöðvar Matís ohf. til að fræðast um hefðbundin og ný íslensk matvæli og framtíð í matvælagerð með þrívíddarprentun matvæla og sýndarveruleika. Heimsóknin átti sér stað eftir tvenna tónleika sem Sheeran hélt hér á landi. Larsson var á meðal þeirra sem hituðu upp fyrir kappann.

Larsson og Harte fengu meðal annars að bragða á salamöndru og fisk úr smjöri, sem var að sjálfsögðu borið fram með flatkökum og harðfiski af gamla skólanum. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Matís.

Þá fengu þau að prófa sérstök sýndarveruleikagleraugu þar sem þau fengu að „upplifa fiskveiðar og fiskvinnslu í návígi.“

„Josh og matarfrumkvöðlarnir áttu síðan langan síðdegisverð saman þar sem íslensk matarmenning var kynnt, ásamt þeim einstöku hráefnum sem landið hefur upp á að bjóða. Mikið var rætt um sjálfbærni og hvað Íslendingar hafa náð langt á því sviði, ásamt matarsóun, en Josh er mjög umhugað um þau málefni. Borið var fyrir Josh gómsætt lambakjöt beint frá bónda frá Fjárhúsinu sem er með aðstöðu í Granda Mathöll,“ segir meðal annars í tilkynningunni.

Eins gæddi Harte sér á sviðakjamma sem vakti undrun hans, en þó einnig lukku.

„Heimsóknin gekk vel og vöktu íslensku matvælin mikla lukku. Josh segist hafa fallið fyrir landi og þjóð og getur ekki beðið eftir að koma hingað aftur,“ segir þá í tilkynningunni.

Svið voru meðal þess sem boðið var upp á í heimsókninni.Aðsend/Matís





Fleiri fréttir

Sjá meira


×