Viðskipti innlent

Sýn og Síminn semja um dreifingu á Síminn Sport

Birgir Olgeirsson skrifar
Virgil van Dijk, Sadio Mane og Mohamed Salah, leikmenn Liverpool, sem verða væntanlega áberandi í vetur.
Virgil van Dijk, Sadio Mane og Mohamed Salah, leikmenn Liverpool, sem verða væntanlega áberandi í vetur. Getty/Laurence Griffiths
Sýn og Síminn hafa samið um dreifingu á Síminn Sport á kerfum Vodafone. Áskrifendur að Síminn Sport geta því bæði horft á Ensku úrvalsdeildina í gegnum allar dreifileiðir Vodafone Sjónvarps og með Stöð 2 appinu, sem virkar í snjalltækjum, tölvum og í Apple TV.

„Þetta þýðir í raun að viðskiptavinir Vodafone þurfa ekki að vera með myndlykil frá Símanum eða app frá einhverjum öðrum til að horfa á Símann Sport,“ segir Bára Mjöll Þórðardóttir forstöðumaður markaðsmála Sýnar hf. sem á og rekur Vodafone.

„Viðskiptavinir okkar geta gerst áskrifendur að Símanum Sport og horft á ensku úrvalsdeildina í gegnum okkar kerfi hvort sem er í gegnum myndlykilinn eða í gegnum appið. Þetta gildir fyrir allar okkar dreifileiðir, gagnvirka sjónvarpið (IPTV) og loftnetið (UHF),“ segir Bára jafnframt.

Fjarskiptafyrirtækin Nova og Síminn hafa einnig gert samskonar samning um dreifingu á enska boltanum í gegnum NOVA TV appið á APPLE TV. Þá verður einnig hægt að horfa á út­sendingarnar í snjallsímum, spjald­tölvum og á nova.is.

Þá verður Nova TV appið aðgengilegt í Android TV á næstunni. Báðar íþróttastöðvar Símans verða aðgengilegar í Nova TV, en þriðju stöðinni verður bætt við þegar útsendingar verða frá leikjum í 4K-gæðum.

Vísir er í eigu Sýnar hf.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×