Erlent

A$AP Rocky laus úr haldi og kveðst auðmjúkur eftir erfiða reynslu

Margrét Helga Erlingsdóttir skrifar
Aðdáendur bandaríska rapparans A$AP Rocky eru ánægðir með að hann hafi verið leystur úr haldi.
Aðdáendur bandaríska rapparans A$AP Rocky eru ánægðir með að hann hafi verið leystur úr haldi. Getty/Ray Tamarra
Bandaríska rapparanum A$AP Rocky var í dag sleppt úr haldi en hann hefur verið í haldi sænskra lögregluyfirvalda síðan í byrjun júlí grunaður um líkamsárás. Réttarhöld hafa undanfarna daga staðið yfir í Svíþjóð en Rocky og lífverðir hans tveir bíða niðurstöðu sænskra dómstóla.

Sænski dómarinn ákvað að þremenningarnir skyldu látnir lausir og þeim frjálst að yfirgefa Svíþjóð þar til dómurinn verði kveðinn upp í máli þeirra þann 14. ágúst.

Rocky og tveir lífverðir hans voru ákærðir fyrir að ganga í skrokk á nítján ára sænskum manni að kvöldi dags 30. júní. Meint árás náðist á myndbandsupptöku og er hún á meðal aðalsönnunargagna í málinu. Þremenningarnir segjast allir vera saklausir og segjast hafa brugðist við áreitni þess sænska með sjálfsvörn.

Málið vatt fljótt upp á sig og mátti litlu muna að milliríkjadeila væri í uppsiglingu því Donald Trump, Bandaríkjaforseti, hafði samband við Stefan Löfven, forsætisráðherra í Svíþjóð, til að reyna að sannfæra hann um að beita sér fyrir því að A$AP yrði látinn laus sem allra fyrst.

Löfven sagði að í Svíþjóð væri þrískipting ríkisvalds og að hann, mætti ekki í krafti framkvæmdarvaldsins, beita áhrifum sínum innan dómskerfisins. Trump var ekki ánægður með svör sænska forsætisráðherrans.

Trump fagnaði þó niðurstöðu dómarans í dag og lét í ljós ánægju sína á Twitter.



„A$AP Rocky var sleppt úr haldi í dag og er núna á leiðinni heim til Bandaríkjanna frá Svíþjóð.“

Slobodan Jovicic, lögmaður rapparans, sagði að hann væri sáttur. Hann hefði sett sér tvö markmið, annað þeirra væri að Rocky yrði látinn laus í dag en hinn er að hann verði sýknaður af ákæru um líkamsárás eftir tæpar tvær vikur. „Við verðum bara að bíða og sjá“.

Rapparinn birti þá instagram-færslu í dag þar sem hann þakkaði aðdáendum sínum fyrir að hafa staðið með sér. Hann sagðist ekki geta lýst því með orðum hvað hann væri þeim þakklátur. Síðastliðinn mánuður hafi reynst honum afar erfiður en hann væri auðmjúkari fyrir vikið.






Tengdar fréttir

Móðir A$AP Rocky segir Svía vilja refsa syni sínum öðrum til viðvörunar

Renee Black, móðir rapparans A$AP Rocky, segist vera orðin ráðþrota. Hún hefði haldið að ákall forseta Bandaríkjanna nægði til þess að leysa Rocky úr haldi. Hún hefur aðeins einu sinni náð að tala við Rocky síðan hann var handtekinn en hún segir að hann hafi verið í góðu jafnvægi.

Trump ósáttur með aðgerðaleysi Löfven í máli A$AP Rocky

Bandaríkjaforseti, Donald Trump, lýsti í dag yfir vonbrigðum sínum með aðgerðaleysi forsætisráðherra Svíþjóðar, Stefan Löfven í máli rapparans bandaríska A$AP Rocky sem situr í gæsluvarðhaldi í Svíþjóð




Fleiri fréttir

Sjá meira


×