Lífið

Barnamálaráðherra liðsstjóri á Unglingalandsmótinu

Andri Eysteinsson skrifar
Ásmundur stýrir körfuboltaliði dóttur sinnar.
Ásmundur stýrir körfuboltaliði dóttur sinnar. UMFÍ
Unglingalandsmót Ungmennafélags Íslands (UMFÍ) fer fram á Höfn í Hornafirði þessa verslunarmannahelgina. Mikill fjöldi barna og unglinga á aldrinum 11-18 ára taka þátt í ár en þeim börnum fylgja jafnan foreldrar.

Einn þeirra er félags- og barnamálaráðherra Ásmundur Einar Daðason en hann er á mótinu ásamt dætrum sínum sem taka þátt í fjölda greina, þar á meðal í körfubolta en Ásmundur er þar liðsstjóri. Frá Ásmundi og dætrum er sagt á vef UMFÍ.

Dætur Ásmundar eru 11 og 13 ára og er önnur þeirra skráð í lið Borgfirðinga en hin er ekki skráð í lið. „Það er alveg frábært. Stelpurnar eignast mikið af nýjum vinkonum. Önnur keppir í liði með stelpum sem hún þekkir ekki en hittir svo og keppir á móti í körfuboltanum á veturna. Þetta er einfaldlega æðislegt mót og hægt að leyfa sér ýmislegt í keppni sem ekki er hægt að gera á veturna,“ segir Ásmundur.

Ásmundur segir að ekkert hafi komið til greina annað en að vera á tjaldsvæðinu ásamt öðrum foreldrum barna sem keppa undir merkjum Ungmennasambands Borgarfjarðar. „Þetta er alveg frábært mót og yndislegt að geta farið hér um allt með börnunum. Nú kemst ekkert annað um verslunarmannahelgi en að fara á Unglingalandsmót UMFÍ. Við munum mæta næstu 15 árin,“ segir Ásmundur Einar Daðason félags- og barnamálaráðherra.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.