Erlent

Sænskir betlarar þurfa betlaraleyfi

Sylvía Hall skrifar
Betlarar geta verið sektaðir um allt að fimmtíu þúsund krónur hafi þeir ekki sótt um leyfi.
Betlarar geta verið sektaðir um allt að fimmtíu þúsund krónur hafi þeir ekki sótt um leyfi. Vísir/Getty
Í bænum Eskilstuna í Svíþjóð hefur verið tekið upp á því að úthluta leyfum fyrir betlara sem hyggjast biðja fólk um pening á götum úti. Leyfið mun kosta 250 sænskar krónur sem jafngildir tæplega 3.200 íslenskum.

Leyfið gildir í þrjá mánuði eftir útgáfu þess en til þess að fá slíkt leyfi þarf að framvísa gildum skilríkjum. Hægt er að sækja um það rafrænt eða á lögreglustöð í bænum. Þeir sem verða uppvísir að því að betla á götum Eskilstuna eiga yfir höfði sér sekt upp á 4.000 sænskar krónur, sem gera rúmlega fimmtíu þúsund íslenskar.

Breytingarnar tóku gildi þann 1. ágúst síðastliðinn eftir margra ára undirbúningsferli og strax daginn eftir hafði lögreglu borist átta umsóknir að því er fram kemur á vef Aftonbladet. Daginn sem breytingarnar tóku gildi þurfti lögregla að hafa afskipti af þremur betlurum sem báðu um pening án leyfis.

Tæplega sjötíu þúsund manns búa í bænum sem er staddur í 89 kílómetra fjarlægð vestur af Stokkhólmi.

Breytingarnar hafa fengið blendin viðbrögð og segja sumir þær vera þess valdandi að glæpagengi gætu misnotað þær með því að borga fyrir leyfi fólks og síðar krefja það um peninginn sem safnaðist. Aðrir segja þetta vera spurningu um hvort betl ætti að viðgangast í velferðarríki á borð við Svíþjóð.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×