Innlent

Spitfire-orustuflugvélin sneri við vegna veðurs

Kristján Már Unnarsson skrifar
Spitfire-vélin Silver Spitfire. Hún var hreinsuð af allri málningu og ber álskrokkurinn látinn njóta sín.
Spitfire-vélin Silver Spitfire. Hún var hreinsuð af allri málningu og ber álskrokkurinn látinn njóta sín. Mynd/Silverspitfire.com.
Breska Spitfire-orustuvélin, sem væntanleg var til Reykjavíkur í dag, sneri við í morgun, ásamt fylgdarvél sinni, eftir að vélarnar voru búnar að vera um hálftíma á lofti frá Skotlandi á leið sinni til Íslands um Færeyjar. Ástæðan sem gefin er upp er vont veður, samkvæmt upplýsingum frá Icelandair, sem annast afgreiðslu vélanna hérlendis. 

Spitfire-vélin og Pilatus-fylgdarvélin hófu sig til flugs frá flugvellinum í Lossiemouth í Norður-Skotlandi klukkan tíu í morgun og áætluðu lendingu í Vogum í Færeyjum klukkan 11.30 til eldsneytistöku. Lendingartími í Reykjavík var áætlaður klukkan 13.30. 

Vélarnar voru rétt búnar að yfirgefa meginland Skotlands og komnar út á Atlantshafið vestur af Orkneyjum um klukkan 10.30 þegar sjá mátti á flugratsjárvefnum Flighradar24 að þær sneru báðar við. Þær lentu svo aftur á vellinum í Lossiemouth um klukkan 11. Óvíst er hvort leiðangurinn reyni aftur við Norður-Atlantshafið síðar í dag eða hvort flugi verði frestað til morguns.

 

Uppfært kl. 13.50. Fylgarvélin áætlar lendingu í Reykjavík kl. 17.10 síðdegis, Spitfire-vélin er enn á flugvellinum í Skotlandi, samkvæmt upplýsingum Icelandair.

 

Fylgjast má með leiðangrinum á Silverspitfire.com.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×