Skoðun

Brostu þó illa tenntur sért

Jón Sigurður Eyjólfsson skrifar
Einn föstudaginn var gítarleikarinn okkar afar dapur á hljómsveitaræfingunni. Hann er ekki aðeins gítarleikari heldur syngur með sinni bassarödd svo fagurlega að hvert sinn sem ég heyri finnst mér ég vera lítill drengur í tómstundaherberginu hans pabba að hlusta á Roger Whittaker. Þar að auki er hann bjartsýnasti og brosmildasti maður sem ég þekki. En það hafði svolítið komið uppá. Hann er nefnilega kennari líka og þegar hann var að afhenda einkunnirnar tóku nærstaddir eftir því að hann talaði útí bláinn. Fór fólk að spyrja hann einfaldra spurninga og kom þá í ljós að hann mundi ekki nöfn barnanna. Það var farið með hann á spítala og þar kom í ljós að einhver þremillinn þrengdi að æð í heila svo til vandræða horfði. Hægt var að bægja hættunni frá að sinni en þennan föstudag var yfirvofandi aðgerð þar sem fjarlægja átti vágestinn að fullu. En slíkt er vandaverk og ef illa fer getur sjúklingurinn vaknað mállaus eða með heilabilun. Það þyrmdi yfir mig þegar ég frétti þetta.

Svo var ég í borgarferð í Málaga þegar ég síðan frétti að allt hefði tekist vel og hann vaknað jafn spakur eftir aðgerðina og hann hafði sofnað. Ég fagnaði vel en varð þá fyrir því óhappi að gervitönnin sem trónir fremst í munni sat föst í súsíinu mínu. Síðan gat ég ekki á mér heilum tekið meðan ég rölti um borgina eins illa tenntur og þræll til forna. Á leiðinni útúr borginni varð mér hugsað til vinar míns og þá allt í einu blasti við stórt skilti þar sem á stóð: Málaga. Og það var satt, það má laga svona skolt. Svona er ágætt að geta borið saman bömmera sína við alvöru vandamál sem fólk á við að etja. Og ég held að ég muni ekki fara á bömmer framar yfir einhverju sem ég veit að vel að má laga.




Skoðun

Skoðun

BRCA

Elín Íris Fanndal Jónasdóttir skrifar

Sjá meira


×