Erlent

Lögreglumaður sem sagði að skjóta þyrfti þingkonu rekinn

Kjartan Kjartansson skrifar
Ocasio-Cortez er á meðal róttækra þingmanna demókrata sem náðu kjöri í þingkosningum í fyrra.
Ocasio-Cortez er á meðal róttækra þingmanna demókrata sem náðu kjöri í þingkosningum í fyrra. Vísir/EPA
Yfirvöld í Louisiana í Bandaríkjunum ráku tvo lögreglumenn vegna Facebook-færslu um að Alexandria Ocasio-Cortez, þingkona Demókrataflokksins, ætti skilið að vera skotin. Ocasio-Cortez er ein fjögurra þingkvenna sem Donald Trump forseti hefur gagnrýnt linnulítið undanfarnar vikur og sagt að snúa til síns heima.

Annar lögreglumaðurinn frá bænum Gretna skrifaði færslu á Facebook um grein þar sem var ranglega haft eftir Ocasio-Cortez að bandarískir hermenn væru ofaldir af launum sínum. Þar sagði hann að þingkonan þyrfti á „skoti“ að halda. Hinn lögreglumaðurinn sem var rekinn líkaði við færsluna, að sögn breska ríkisútvarpsins BBC.

„Þessi ógeðslegi hálfviti á skilið skot…og ég meina ekki þá tegund sem hún bar einu sinni fram,“ skrifaði lögregluþjónninn og vísaði þar til þess að Ocasio-Cortez var barþjónn í New York áður en hún komst inn á þing í fyrra.

Lögreglustjórinn Í Gretna sagði að málið væri vandræðalegt fyrir embættið. Lögregluþjónarnir hefðu hagað sér ófagmannlega með því að tala um að beita sitjandi þingkonu ofbeldi.

Bandarískum borgurum sagt að fara „heim“

Þrátt fyrir að Ocasio-Cortez sé fædd og alin í Bandaríkjunum var hún ein þeirra þingkvenna demókrata sem Trump tísti um að ætti að fara til síns heima fyrir rúmri viku. Rasísk ummæli forsetans hafa orðið að hitamáli vestanhafs síðan en hann hefur haldið áfram að vega að þingkonunum fjórum og vænt þær um að hata Bandaríkin og gyðinga.

Þingkonurnar hafa brugðist við af krafti. Ocasio-Cortez tísti meðal annars að Trump væri „hvatvís rasisti“ sem láti flokk sinn vandræðast við að afsaka fordóma hans.

Stuðningsmenn Trump kölluðu eftir því að hann ræki Ilhan Omar, þingkonu demókrata frá Minnesota, úr landi á kosningafundi á miðvikudag. Omar er eina þingkonan af þeim fjórum sem Trump gagnrýndi sem fæddist utan Bandaríkjanna. Hún flúði Sómalíu sem barn og settist að í Bandaríkjunum ung að árum.

Ocasio-Cortez var einnig skotspónn landamæravarða í leynilegum Facebook-hópi sem upplýst var um fyrr í þessum mánuði. Usu þeir yfir hana svívirðingum og deildu unnum myndum sem sýndu hana í kynferðislegu ljósi, meðal annars með Trump forseta.


Tengdar fréttir

Fulltrúadeildin fordæmir ummæli Trump

Fulltrúadeild Bandaríkjaþings greiddi atkvæði um að fordæma ummæli Donald Trump Bandaríkjaforseta í garð þingkvenna Demókrataflokksins.

„Ég sagði þetta ekki, þeir gerðu það“

Donald Trump Bandaríkjaforseti kveðst óánægður með stuðningsmenn sína sem kyrjuðu að forsetinn ætti að reka svarta þingkonu úr landi á baráttufundi í Norður-Karólínu í gærkvöldi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×