Íslenski boltinn

Gífurleg spenna í Pepsi Max-deild kvenna: Toppliðin jöfn og þrjú stig frá 5. sætinu niður í fallsæti

Anton Ingi Leifsson skrifar
Elín Metta og Ásta Eir berjast um boltann í Vals og Breiðabliks í þar síðustu umferð.
Elín Metta og Ásta Eir berjast um boltann í Vals og Breiðabliks í þar síðustu umferð. vísir/daníel
Gífurleg spenna er í Pepsi Max-deild kvenna en flest liðin hafa leikið ellefu leiki. ÍBV og Fylkir eiga inni leik frá því í áttundu umferð deildarinnar.

Toppliðin Valur og Breiðablik unnu bæði leiki sína í gær. Valur vann öruggan 3-0 sigur á KR í Reykjavíkurslag en Breiðablik marði sigur á Selfoss á heimavelli.

Bæði lið eru með 31 stig á toppi deildarinnar en þau hafa ekki tapað leik í sumar. Toppliðin hafa unnið tíu leiki og innbyrðis viðureignin á Hlíðarenda endaði með dramatísku 2-2 jafntefli.

Því eru þau með 31 stig en langt er niður í þriðja sætið. Þór/KA er í þriðja sætinu með 17 stig og Selfoss er í fjórða sætinu með sextán stig. Frá fimmta sæti og niður hefst svo rosalega fallbarátta.

Stjarnan skoraði sín fyrstu mörk og vann sinn fyrsta sigur í rúma tvo mánuði er liðið vann 5-2 sigur á HK/Víkingi í Fossvoginum í gær. Með sigrinum hoppaði Stjarnan upp í fimmta sætið með 13 stig.

ÍBV er í sjötta sætinu með tólf stig og í sjöunda, áttunda og níunda sæti eru Keflavík, KR og Fylkir öll jöfn með tíu stig. HK/Víkingur er svo á botninum með sjö stig svo fallbaráttan telur sex lið. Rosaleg barátta.

Tólfta umferðin í deildinni fer fram um helgina en topplið Breiðablik heimsækir Keflavík og Valur mætir Stjörnunni á útivelli. ÍBV heimsækir Þór/KA, KR fær Fylki í heimsókn og HK/Víkingur fer á Selfoss.

Áttunda umferðin verður gerð upp í Pepsi Max-mörkum kvenna sem verða á dagskrá Stöðvar 2 Sports klukkan 21.10 í kvöld þar sem Helena Ólafsdóttir og spekingar fara yfir umferðina.

Staðan í deildinni

1. Valur 31 stig +32

2. Breiðablik 31 stig +28

3. Þór/KA 17 stig +0

4. Selfoss 16 stig -2

5. Stjarnan 13 stig -9

6. ÍBV 12 stig -5

7. Keflavík 10 stig -2

8. KR 10 stig -11

9. Fylkir 10 stig -13

10. HK/Víkingur 7 stig -18




Fleiri fréttir

Sjá meira


×