Erlent

Trump tísti um óánægju með vitnisburð Muellers

Þórgnýr Einar Albertsson skrifar
Donald Trump, forseti Bandaríkjanna.
Donald Trump, forseti Bandaríkjanna. Nordicphotos/AFP
Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, fór með rangt mál þegar hann sagði að rannsókn Roberts Mueller, sérstaks saksóknara, á Rússamálinu hafi leitt í ljós að forsetinn væri alsaklaus af ásökunum um að hann hafi hindrað framgang réttvísinnar. Þetta sagði Mueller sjálfur þegar hann kom fyrir dómsmálanefnd fulltrúadeildar þingsins í gær.

Ekki var ákveðið að ákæra Trump fyrir nokkurn glæp vegna rannsóknarinnar. Er það vegna reglna dómsmálaráðuneytisins um að ekki skuli ákæra forseta Bandaríkjanna. Er Jerry Nadler, Demókrati og formaður nefndarinnar, spurði Mueller hvort hægt væri að ákæra Trump eftir að hann lætur af embætti sagði Mueller svo vera.

Trump svaraði fyrir sig á Twitt­er. „Þannig að Demókratar mega, ólöglega, skálda upp glæp og gera mjög saklausum forseta upp sakir og þegar hann svarar fyrir sig gegn þessari ólöglegu árás á ríkið er hann sakaður um að hindra framgang réttvísinnar? Rangt!“ tísti Trump.

Hann hélt áfram og gagnrýndi að Mueller hafi ekki sérstaklega rannsakað Hillary Clinton, keppinaut Trumps árið 2016, James Comey, fyrrverandi alríkislögreglustjóra, Mueller sjálfan og fleiri aðila. „Hvers vegna rannsakaði Robert Mueller ekki hvernig og hvers vegna hin spillta Hillary Clinton eyddi 33.000 tölvupóstum EFTIR að bandaríska þingið STEFNDI henni? Hún hlýtur að vera með FRÁBÆRA lögmenn!“




Tengdar fréttir

Mueller samþykkir að bera vitni fyrir þingnefnd

Formenn tveggja nefnda fulltrúadeildar Bandaríkjaþings stefndu fyrrverandi sérstaka rannsakandandum til að bera vitni um rannsókn hans og niðurstöður um afskipti Rússa af forsetakosningunum árið 2016 og mögulega glæpi Trump forseta.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×