Erlent

Trump ósáttur með aðgerðaleysi Löfven í máli A$AP Rocky

Andri Eysteinsson skrifar
Trump hvetur Svía til þess að fara betur með Bandaríkjamenn
Trump hvetur Svía til þess að fara betur með Bandaríkjamenn Getty/Anadolu Agency
Bandaríkjaforseti, Donald Trump, lýsti í dag yfir vonbrigðum sínum með aðgerðaleysi forsætisráðherra Svíþjóðar, Stefan Löfven í máli rapparans bandaríska A$AP Rocky sem situr í gæsluvarðhaldi í Svíþjóð. Rapparinn var handtekinn í byrjun júlí grunaður um líkamsárás.

Trump forseti greindi á dögunum frá fyrirætlunum sínum í málinu, sagðist hann ætla að hringja í Löfven og greiða úr flækjunni. Nú segist Trump vera ósáttur með það að Löfven geri ekkert í málinu.

Sjá einnig: A$AP Rocky ákærður fyrir líkamsárás í Svíþjóð



„Svíþjóð er að bregðast samfélagi Bandaríkjamanna af afrískum uppruna. Ég hef horft á upptökur af atvikinu og A$AP Rocky var hundeltur og áreittur af vandræðagemsum. Komið fram við Bandaríkjamenn á réttlátan hátt,“ skrifaði Trump.

A$AP Rocky er sakaður um að hafa ráðist á mann í Stokkhólmi þann 30. júní síðastliðinn ásamt tveimur öðrum mönnum. Hann, ásamt mönnunum tveimur, hefur verið í haldi lögreglu í Svíþjóð síðan í byrjun júlí vegna gruns um líkamsárás.

Trump hefur undanfarið rætt við hjónin Kim Kardashian og Kanye West um málefni A$AP Rocky sem er góður vinur þeirra hjóna.

„Veittu A$AP Rocky FRELSI. Við gerum svo mikið fyrir Svíþjóð en fáum lítið til baka. Svíar ættu að einbeita sér að hinum raunverulegu glæpum í landinu #FreeRocky,“ bætti forsetinn við.


Tengdar fréttir

Trump bauðst til að ábyrgjast A$AP Rocky persónulega

Fjölmiðlafulltrúi sænska forsætisráðherrans greindi frá því að Löfven hafi í samtali sínu við Trump lagt áherslu á sjálfstæði sænska dómskerfisins og að stjórnvöld geti ekki reynt að hafa áhrif á framgöngu málsins.

Móðir A$AP Rocky segir Svía vilja refsa syni sínum öðrum til viðvörunar

Renee Black, móðir rapparans A$AP Rocky, segist vera orðin ráðþrota. Hún hefði haldið að ákall forseta Bandaríkjanna nægði til þess að leysa Rocky úr haldi. Hún hefur aðeins einu sinni náð að tala við Rocky síðan hann var handtekinn en hún segir að hann hafi verið í góðu jafnvægi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×