Körfubolti

Fyrrum eiginkona NBA-leikmanns á leið í 30 ára fangelsi fyrir morðið á honum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Sherra Wright, fyrrum eiginkona Lorenzen Wright, í réttarsalnum í gær.
Sherra Wright, fyrrum eiginkona Lorenzen Wright, í réttarsalnum í gær. AP/Jim Weber
Aðeins ári eftir að þrettán ára NBA-ferli Lorenzen Wright lauk átti fyrrum eiginkona hans stóran þátt í að enda líf hans. Konan heitir Sherra Wright og viðurkenndi sekt sína í réttarsal í Memphis í gær.

Lorenzen Wright spilaði 778 leiki í NBA-deildinni með fimm félögum frá 1996 til 2009. Hann endaði ferilinn með Cleveland Cavaliers tímabilið 2008-09.

Rúmu ári síðan yfirgaf Lorenzen heimili sitt en sást ekki á lífi aftur. Hann átti að hafa yfirgefið húsið með fullt af peningum og eiturlyfjum samkvæmt fyrrum eiginkonu hans.

Lík hans fannst tíu dögum síðar en hann hafði verið skotinn til bana og skilinn eftir í mýrlendi í úthverfi Memphis.





Sherra Wright, fyrrum eiginkona Lorenzen Wright, lýsti sig óvænt seka í gær en hún játaði þá að hafa tekið þátt í morðinu á eiginmanni sínum fyrir níu árum síðan.

Hún var í kjölfarið dæmd í 30 ára fangelsi og getur fyrst sloppið út eftir níu ár. Ef hún hefði farið í gegnum réttarhaldið og verið dæmd sek þá átti hún á hættu að vera dæmd í lífstíðarfangelsi.

Billy Ray Turner var ákærður fyrir morðið á Lorenzen Wright. Hann og Sherra Wright voru fyrst ákærð fyrir morðið í desmber 2017. Réttarhald hans hefst 16. september en ekki er vitað hvort hún muni bera þar vitni.







Þau skipulögðu morðið saman og hentu byssunni í Mississippi vatn. Byssan fannst nokkrum vikum áður en þau voru ákærð.

Móðir Lorenzen Wright hefur ekki fengið að hitta barnabörnin sín og fékk að koma inn í réttarsalinn eftir að Sherra Wright játaði.

„Ég hata það sem kom fyrir barnið mitt en hann skildi eftir falleg börn fyrir ömmu þeirra,“ sagði Deborah Marion, móðir Lorenzen Wright. Deborah Marion vill að Sherra Wright verði í fangelsi öll 30 árin.

Lorenzen Wright á síðasta tímabili sínu í NBA 2008-09. Hér er hann í liðsmyndatöku Cleveland Cavaliers.AP/Mark Duncan



Fleiri fréttir

Sjá meira


×