Erlent

Trump sagði umdæmi þingmanns "ógeðslegt og morandi í rottum og nagdýrum“

Eiður Þór Árnason skrifar
Trump sakaði Cummings einnig um að níðast á sér.
Trump sakaði Cummings einnig um að níðast á sér. Vísir/AP
Trump fór ófögrum orðum um umdæmi þingmannsins Elijah Cummings á Twitter í gær þar sem Trump sagði umdæmi hans í Marylandríki vera „ógeðslegt og morandi í rottum og nagdýrum.“

Cummings er þingmaður Demókrata í fulltrúadeild Bandaríkjaþings og formaður eftirlitsnefndar fulltrúadeildarinnar. Hann hefur gagnrýnt Trump harðlega í gegnum tíðina, meðal annars innflytjendastefnu ríkisstjórnar hans.

Eftirlitsnefnd þingsins hefur undir formennsku Cummings staðið fyrir ýmsum rannsóknum á Trump og fjölskyldu hans, Bandaríkjaforseta til mikillar gremju.

Trump sagði jafnframt að aðstæður á syðri landamærum Bandaríkjanna við Mexíkó væru mun betri en í umdæmi þingmannsins. Hann lagði til að Cummings myndi einbeita sér frekar að eigin umdæmi og „hjálpa til við að hreinsa þennan afar hættulega og skítuga stað.“

Meirihluti íbúa í umdæmi Cummings eru dökkir á hörund og hafa árásir Trump í gær verið tengdar við litarhaft þingmannsins og samsetningu umdæmis hans.

Nancy Pelosi, forseti fulltrúadeildar Bandaríkjaþings og einn leiðtoga Demókrataflokksins, sagði á Twitter í gær að flokkurinn „hafni rasískum árásum“ á Cummings og sýni þingmanninum stuðning.

Árásir Trump í gær koma einungis nokkrum vikum eftir að hann var gagnrýndur fyrir að segja fjórum þingkonum Demókrata að fara aftur til síns heima.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×