Viðskipti innlent

Kári kaupir í Stoðum fyrir um 300 milljónir 

Hörður Ægisson skrifar
Kári Guðjón Hallgrímsson
Kári Guðjón Hallgrímsson
Félag í eigu Kára Guðjóns Hallgrímssonar, stjórnanda á skuldabréfasviði fjárfestingabankans JP Morgan í London, var í hópi þeirra fjárfesta sem keyptu undir lok síðasta mánaðar samtals um nítján prósenta hlut Arion banka í fjárfestingarfélaginu Stoðum. Samkvæmt heimildum Markaðarins nam fjárfesting Kára í Stoðum yfir þrjú hundruð milljónum króna sem tryggir honum vel yfir eins prósents eignarhlut í félaginu.

Tilkynnt var um sölu Arion banka föstudaginn 28. júní síðastliðinn en sjóðir í stýringu Stefnis, dótturfélags bankans, fóru fyrir fjárfestahópnum og keyptu samanlagt um átta prósenta hlut í Stoðum. Samkvæmt heimildum Markaðarins samanstóð kaupendahópurinn af nærri tuttugu sjóðum og fjárfestum.

Hlutafé Stoða var aukið um hátt í 3,7 milljarða króna í lok maímánaðar og nam eigið fé félagsins í kjölfarið um 22 milljörðum króna. Miðað við það má áætla að bókfært virði eignarhlutar Arion banka hafi verið um 4,4 milljarðar króna.

Kári hefur starfað hjá bandaríska fjárfestingarbankanum í sautján ár og undanfarið sem framkvæmdastjóri á skuldabréfasviði bankans. Félagið Vindhamar, sem er í eigu Kára, var á meðal fjárfesta sem tóku þátt í þrjú hundruð milljóna króna hlutafjáraukningu hátæknifyrirtækisins Valka á síðasta ári.

Stoðir, sem eru á meðal stærstu hluthafa í tryggingafélaginu TM, Arion banka og Símanum, högnuðust um 1.100 milljónir króna á síðasta ári. Stærsti hluthafi Stoða er eignarhaldsfélagið S121 sem er meðal annars í eigu félaga á vegum Jóns Sigurðssonar, stjórnarformanns Stoða, Einars Arnar Ólafssonar, fyrrverandi forstjóra Skeljungs, og Örvars Kjærnested, fjárfestis og stjórnarformanns TM. Aðrir helstu hluthafar Stoða eru Landsbankinn með fimmtán prósenta hlut og Íslandsbanki á tvö prósent í félaginu.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×