Lífið

Snekkjurokkaðar vinkonur á siglingu

Þórarinn Þórarinsson skrifar
Stefanía Helga, Anna Ingibjörg og Eva Kolbrún hafa í nógu að snúast, komnar með lag á Spotify og fram undan er Airwaves og fleiri spennandi molar í konfektkassa lífsins sem stendur þeim galopinn.
Stefanía Helga, Anna Ingibjörg og Eva Kolbrún hafa í nógu að snúast, komnar með lag á Spotify og fram undan er Airwaves og fleiri spennandi molar í konfektkassa lífsins sem stendur þeim galopinn. Fréttablaðið/Stefán
Anna Ingibjörg, Stefanía Helga og Eva Kolbrún eru rúmlega tvítugar, vinkonur af Seltjarnarnesinu sem hafa þekkst síðan þær voru með bleyju, eins og þær orða það.

Þær stofnuðu hljómsveitina Konfekt seint á síðasta ári og skömmu eftir að þær byrjuðu að semja eigin tónlist ákváðu þær að taka þátt í Músíktilraunum. Með svo góðum árangri að þær enduðu í 2. sæti í vor, spiluðu á Secret Solstice, munu troða upp á Airwaves í haust og fyrsta lagið þeirra, Hvernig sem fer, er komið á Spotify.

„Við vorum mjög hissa þegar við náðum öðru sæti í Músíktilraunum,“ segir Eva Kolbrún og bætir við að þær hafi ekki búist við því að komast í úrslit. „Þetta var í fyrsta sinn sem við spiluðum opinberlega og síðan gekk þetta allt vonum framar og allt í einu vorum við á sviðinu í öðru sæti.“

Stelpurnar segja að strax í kjölfarið hafi komið verkefni sem þær hafði ekki órað fyrir. „Það var ótrúlega skemmtilegt að spila á Secret Solstice. Á svona stóru flottu sviði með frábærum listamönnum.“ Ekki skyggði heldur á gleðina að þær líta upp til margra sem komu fram á hátíðinni.

„Það er til dæmis draumur að spila á sama sviði og Black Eyed Peas, risastórt band sem á fjöldann allan af lögum sem maður kann utan að þar sem tónlist þeirra var vinsæl þegar við vorum að alast upp.“

Snekkju- og „indí“-bræðingur

Tónlist Konfekts hefur verið lýst sem eins konar „indí-poppi“ eða „snekkjurokki“ þar sem grípandi stef og taktur grípa hlustendur. „Við vitum ekki alveg hvað snekkju-rokk er en þetta var notað til þess að lýsa tónlistinni okkar eftir Músíktilraunir,“ segir Eva Kolbrún. „Samkvæmt Google er þetta mjúkt rokk sem spilað var á snekkjum kringum 1980. Okkur finnst gaman að orðinu og þar sem það getur reynst erfitt að skilgreina eigin tónlist höfum við notað þetta.“

Konfekt stendur á grunni gamallar og traustrar vináttu en stelpurnar hafa fylgst að frá blautu barnsbeini. „Við ólumst allar upp á hinu víðfræga Seltjarnarnesi og vorum þar af leiðandi allar saman á leikskóla og síðan grunnskóla. „Stundum saman í bekk og stundum ekki,“ segir Eva Kolbrún. „Vorum líka allar saman í handbolta hjá Gróttu og þess má geta að þar eigum við líka 2. sæti. Á Íslandsmeistaramóti 6. flokks kvenna árið 2009.“



Snemma beygist krókurinn

Eva Kolbrún er trommuleikari hljómsveitarinnar en hún greip á sínum tíma í kjuðana vegna þess að ekki var pláss fyrir hana í harmonikunáminu sem freistaði hennar mest. Slagverk var annað val og þegar hún fór að spila á trommurnar varð ekki aftur snúið. Það má því segja að trommurnar hafi valið hana.

“Airwaves er auðvitað mjög spennandi verkefni en það er búið að vera svo margt í gangi að við erum varla farnar að hugsa um það,” segja stelpurnar sem eru á fleygiferð og komnar á Spotify og aðrar tónlistarveitur með lagið Hvernig sem fer.
Eva spilaði í tónlistarskólanum á Seltjarnarnesi í ellefu ár þar sem hún spilaði fyrst með Stefaníu í lúðrasveit skólans. Anna Ingibjörg og Eva Kolbrún spiluðu síðan fyrst saman í hljómsveitinni Stelpur í stuði, þar sem Anna spilaði á gítar og söng. Stefanía byrjaði að spila á klarinett sem barn og kenndi sér sjálf á píanóið sem var á heimilinu. Síðar fékk hún gítar í jólagjöf, lærði á hann og er gítarleikari bandsins.

Lítt gefnar fyrir dramað

Stelpurnar segja Konfekt hafa orðið til þegar Eva og Stefanía voru farnar að sakna þess að spila saman. „Stefanía sneri sér þá að Önnu sem var byrjuð að semja alls konar lög á píanó í kjallaranum en hún er einmitt píanóleikari sveitarinnar.“

Þær segjast hafa byrjað með því að spila lög eftir aðra, ábreiður, en fljótt hafi orðið erfitt að sammælast um hvaða lög þær ættu að spila. „Þá fórum við að semja okkar eigin lög í staðinn,“ segir Eva Kolbrún. „Þegar við semjum lög kemur yfirleitt ein okkar með hugmynd sem við vinnum síðan úr saman. Textinn kemur oftast síðastur og þar á Anna stærstan hluta.“

Stelpurnar segja samstarfið hafa gengið vel hingað til og lítið sem ekkert um alvarlegan ágreining eins og oft vill verða í hljómsveitum náinna vina. „Við erum ekki alltaf sammála um allt en við þekkjum hver aðra svo vel að það verður ekkert stórmál. Svo erum við líka allar frekar tjillaðar týpur og ekki mikið fyrir dramað.“










Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.