Skoðun

Fjölskylduvænni námsaðstoð

Lilja Alfreðsdóttir skrifar
Frumvarpsdrög um Stuðningssjóð íslenskra námsmanna, nýjan námsstyrkja- og lánasjóð, voru kynnt í samráðsgátt stjórnvalda í vikunni. Frumvarpið er afurð heildarendurskoðunar á lögum um Lánasjóð íslenskra námsmanna. Markmið þess er að tryggja þeim sem falla undir lögin tækifæri til náms án tillits til efnahags og stöðu að öðru leyti, með því að veita námsmönnum fjárhagslega aðstoð í formi námslána og styrkja.

Með samþykkt frumvarpsins verða gerðar róttækar breytingar á námslánakerfinu og verður stuðningur við barnafólk aukinn sérstaklega. Í núverandi námslánakerfi er lánað fyrir framfærslu barna en með nýju fyrirkomulagi geta lánþegar fengið styrk vegna slíkrar framfærslu. Ákvæði þetta er nýmæli en markmiðið með styrknum er að jafna aðstöðu lánþega sem eiga börn og annarra lánþega, og koma í veg fyrir hærri skuldsetningu þeirra að námi loknu. Gert er ráð fyrir að styrkur til framfærslu hvers barns sé í samræmi við námstíma námsmanns að hámarki 96 mánuðir.

Fæðingartíðni á Íslandi er í sögulegu lágmarki og námsmenn á Íslandi eru líklegri til að hafa fjölskyldu á framfæri en námsmenn í öðrum Evrópuríkjum. Ríkisstjórnin leggur ríka áherslu á að styðja enn betur við barnafólk en í ársbyrjun voru til að mynda óskertar hámarksgreiðslur úr fæðingarorlofssjóði hækkaðar um rúm 15% og er lenging samanlagðs réttar foreldra til fæðingarorlofs úr 9 mánuðum í 12 í farvatninu. Með Stuðningssjóði íslenskra námsmanna munum við styðja betur við barnafólk sem þiggur lán hjá sjóðnum á meðan á námi stendur.

Frumvarp um Stuðningssjóð íslenskra námsmanna er mikilvægt og tímabært skref í þá átt að bæta kjör og aðstæður námsmanna líkt og fjallað er um í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar. Ég þakka námsmannahreyfingunni og þeim fjölmörgu sem komið hafa að undirbúningi þessa tímamótafrumvarps og hvet áhugasama til þess að kynna sér frumvarpsdrögin sem nú eru aðgengileg í samráðsgátt stjórnvalda.

Höfundur er mennta- og menningarmálaráðherra.




Skoðun

Skoðun

BRCA

Elín Íris Fanndal Jónasdóttir skrifar

Sjá meira


×