Erlent

Níu látnir í flugslysi í Svíþjóð

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Skjáskot úr myndbandi hins sextán ára Axels, sem varð vitni að slysinu við Umeå í dag.
Skjáskot úr myndbandi hins sextán ára Axels, sem varð vitni að slysinu við Umeå í dag. Skjáskot/SVT
Níu eru látnir eftir að lítil flugvél brotlenti á eyjunni Storsandskär í grennd við sænsku borgina Umeå skömmu eftir klukkan tvö að sænskum tíma í dag. Enginn komst lífs af úr slysinu en talið er að farþegarnir í vélinni hafi verið fallhlífastökkvarar.

SVT hefur eftir sjónarvotti að fólk hafi stokkið út úr vélinni áður en hún brotlenti. Viðbragðsaðilar eru enn að störfum á vettvangi.

SVT ræðir jafnframt við hinn sextán ára Axel, sem býr í nágrenni við flugvöllinn í Umeå og tók slysið upp á myndband. Hann lýsir því hvernig hann hafi setið inni í stofu þegar hann heyrði hátt vélarhljóð.

„Hún brotlenti með háum hvelli og svo varð allt hljótt. Hjartslátturinn varð mjög hraður, ég náði vart andanum og stóð bara og hugsaði: Hvað í fjandanum er að gerast, hvað í fjandanum er að gerast, hvað geri ég nú?“ segir Axel í samtali við SVT.

Þegar fyrst var tilkynnt um slysið var ekki ljóst hvort flugvélin hefði hrapað í sjó eða á land en síðar kom í ljós að hún brotlenti á eyjunni Storsandskär, skammt frá flugbraut flugvallarins í Umeå.

Umeå er í norðausturhluta Svíþjóðar en um 87 þúsund manns búa í borginni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×