Erlent

Ætlar að hringja í „hinn hæfileikaríka“ forsætisráðherra Svíþjóðar til að fá A$AP Rocky lausan

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Trump á fundi með Kanye West í Hvíta húsinu í fyrra. Hingað til hefur farið vel á með þeim kumpánum, og virðist West ætla að nýta sér velvild forsetans til að fá vin sinn lausan úr fangelsi.
Trump á fundi með Kanye West í Hvíta húsinu í fyrra. Hingað til hefur farið vel á með þeim kumpánum, og virðist West ætla að nýta sér velvild forsetans til að fá vin sinn lausan úr fangelsi. Vísir/Getty
Donald Trump Bandaríkjaforseti hyggst setja sig í samband við Stefan Löfven, forsætisráðherra Svíþjóðar, og reyna að fá bandaríska rapparann A$AP Rocky lausan úr fangelsi í Stokkhólmi. Rapparinn var handtekinn í byrjun júlí grunaður um líkamsárás.

Sjá einnig: Krefjast þess að fá að halda A$AP Rocky lengur í gæsluvarðhaldi

Trump greindi frá fyrirætlunum sínum í færslu á Twitter í kvöld. Þar sagðist forsetinn nýbúinn að ræða málið við Kanye West, annan bandarískan rappara, en þeim West og A$AP Rocky er vel til vina. Það virðist því að tilstuðlan West sem Trump ætlar að beita sér í málinu.

„Ég ætla að hringja í hinn hæfileikaríka forsætisráðherra Svíþjóðar til að kanna hvað hægt sé að gera varðandi það að hjálpa A$AP Rocky. Fjölda fólks þætti vænt um að málið hlyti farsælan endi!“ sagði Trump í færslu sinni.

A$AP Rocky er sakaður um að hafa ráðist á mann í Stokkhólmi þann 30. júní síðastliðinn ásamt tveimur öðrum mönnum. Hann, ásamt mönnunum tveimur, hefur verið í haldi lögreglu í Svíþjóð síðan í byrjun júlí vegna gruns um líkamsárás.

Í dag var greint frá því að dómari hefði fallist á beiðni saksóknara um að gæsluvarðhald yfir rapparanum og meintum samverkamönnum hans yrði framlengt um eina viku. Var krafan byggð á því að rapparinn myndi yfirgefa Svíþjóð áður en hægt yrði að rannsaka málið betur.

Melania færði honum fréttirnar

Fjallað er um málið á vef SVT í kvöld og vísað í ummæli Trumps á blaðamannafundi í Hvíta húsinu í dag. Þar þakkaði hann forsetafrúnni Melaniu Trump fyrir að hafa vakið athygli sína á máli A$AP Rocky.

„Svíþjóð er frábært land og þeir [Svíar] eru vinir mínir,“ sagði Trump og bætti við að fulltrúar bandarísku ríkisstjórnarinnar hefðu þegar sett sig í samband við yfirvöld í Svíþjóð.

Þá bauð forsetinn Melaniu sjálfri að ávarpa blaðamenn vegna málsins. Hún sagði að þau hjónin, í samstarfi við utanríkisráðuneyti Bandaríkjanna, ynnu nú að því að koma rapparanum heim fljótlega.

A$AP Rocky hefur verið í varðhaldi í Svíþjóð síðan 3. júlí síðastliðinn.Vísir/Getty
Greint var frá því í vikunni að Kanye West og eiginkona hans, athafnakonan Kim Kardashian, hefðu rætt mál A$AP Rocky við við Jared Kushner, tengdason forsetans og einn nánasta ráðgjafa hans, í viðleitni til að vekja athygli Trumps á málinu og fá rapparann lausan úr fangelsi.

Kardashian kom á framfæri þökkum til Kushner, Trumps og Mike Pompeo, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, vegna málsins í gær.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×