Erlent

Segja ákæru á hendur konu sem missti fóstur í skotárás brenglaða

Kjartan Kjartansson skrifar
Marshae Jones var ófrísk þegar hún var skotin í magann í desember. Ákærudómstóll taldi hana hafa efnt til rifrildis og gaf út ákæru vegna manndráps.
Marshae Jones var ófrísk þegar hún var skotin í magann í desember. Ákærudómstóll taldi hana hafa efnt til rifrildis og gaf út ákæru vegna manndráps. Vísir/EPA
Lögmenn konu á þrítugsaldri sem missti fóstur þegar hún var skotin í magann færðu rök fyrir því fyrir dómi í Alabama í Bandaríkjunum í gær að ákæra á hendur henni vegna manndráps væri „gölluð og brengluð“. Þeir telja að ákæran byggi ekki á lögum.

Ákærudómstóll gaf út ákæru á hendur Marshae Jones, 28 ára gamallar konu í síðustu viku. Hún var talin hafa borið ábyrgð á því að hafa misst fóstur með því að hafa valdið rifrildi sem endaði með því að önnur kona skaut hana í magann. Mál gegn konunni sem skaut Jones í magann var fellt niður þar sem dómstóllinn taldi hana hafa hleypt af í sjálfsvörn.

Jones var handtekin á miðvikudag en sleppt gegn tryggingu á fimmtudag. Hún er ekki á sakaskrá og á fyrir sex ára gamalt barn.

Lögmenn hennar vefengdu málatilbúnað ákæruvaldsins þegar mál hennar var tekið fyrir í gær. Jones hefði þurft að vita að hún yrði skotin í magann þegar hún hóf rifrildið til þess að kenning ákæruvaldsins um að hún hafi vísvitandi ætlað að binda enda á meðgöngu sína gengi upp, að því er segir í frétt Reuters.

Benda verjendur Jones á að lög í Alabama kveði á um að ekki megi ákæra konur vegna „ófædds barns“ hennar. Alabamaríki samþykkti stjórnarskrárbreytingu í fyrra sem gaf fóstrum fullan lagalegan rétt og vernd á við manneskju. Í vor samþykktu ríkisþingmenn þar svo ströngustu þungunarrofslög í Bandaríkjunum á grunni stjórnarskrárákvæðisins.

Saksóknarar hafa enn ekki ákveðið hvort Jones verður sótt til saka fyrir manndráp, vægari glæp eða hvort málið gegn henni verði fellt niður.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×