Fótbolti

Lionel Messi missti sig eftir tapið í nótt

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Lionel Messi var svekktur eftir leikinn.
Lionel Messi var svekktur eftir leikinn. Getty/Chris Brunskill
Lionel Messi og félagar í argentínska landsliðinu eru úr leik á Copa America eftir 2-0 tap fyrir Brasilíu í nótt. Það var svekkjandi fyrir Messi að horfa á eftir enn einum möguleikanum á enda bið sína eftir stórum titli með Argentínu.

Þetta mátti sjá í viðtölum eftir leikinn. Lionel Messi hreinlega missti sig eftir tapið í nótt og lét dómara leiksins heyra það.

Leikurinn var harður og ekkert gefið eftir. Ólíkt fyrri leikjum á mótinu var VAR í aukahlutverki í nótt. Það var eitt af því sem Messi kvartaði mikið yfir.

Ekvadorinn Roddy Zambrano sem dæmdi leikinn var ekkert á því að nýta sér Varsjána í þessum leik og það þrátt fyrir Argentínumönnum fannst oft tilefni til þess. Sérstaklega vildu þeir fá vítaspyrnu í stöðunni 1-0 fyrir Brasilíu.

„Dómararnir voru orðnir þreyttir á ruglákvörðunum sínum á Copa og fóru aldrei í Varsjána í leiknum. Þetta var ótrúlegt,“ sagði Lionel Messi eftir leikinn.





„Svona var þetta allan leikinn. Dómararnir voru í ruglinu. Þeir hafa enga afsökun og það þarf að skoða þetta betur. Vonandi gerir CONMEBOL (suðurameríska knattspyrnusambandið) eitthvað við þessa dómara,“ sagði Messi reiður.

„Við reyndum allt sem við gátum til að komast áfram en dómararnir voru á móti okkur. Ég held að það verði ekkert gert því Brasilíumenn ráða öllu í dag. Þetta er því flókið. Við þurfum ekki að skammast okkar. Þetta gekk ekki upp og við vorum ekki með heppnina með okkur í liði,“ sagði Messi.

„Ég er svekktur af því að við áttum góðan leik og gáfum mikið í þetta. Þetta átti ekki að enda svona því þeir voru ekki betra liðið í þessum leik,“ sagði Messi.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×