Viðskipti innlent

Óheimil kostun hjá RÚV í tvígang

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Umsjónarmaður Alla leið var Felix Bergsson og álitsgjafar þau Helga Möller og Karitas Harpa Davíðsdóttir.
Umsjónarmaður Alla leið var Felix Bergsson og álitsgjafar þau Helga Möller og Karitas Harpa Davíðsdóttir. Vísir/Vilhelm
Fjölmiðlanefnd hefur komist að þeirri niðurstöðu að Ríkisútvarpinu hafi verið óheimilt að kosta sjónvarpsþættina #12stig og Alla leið sem sýndir voru á RÚV fyrr á þessu ári. Síminn kvartaði til nefndarinnar vegna kostunar RÚV á umræddum þáttum. Fallið var frá sekt í málinu. Þá er það niðurstaða nefndarinnar að Ríkisútvarpinu hafi verið óheimilt að rjúfa sama þátt með auglýsingum.

Báðir þættir tengjast Söngvakeppni RÚV og Eurovision. #12stig var spjallþáttur sem sýndur var laugardaginn 23. febrúar þar sem rætt var við alla keppendur sem komnir voru í úrslit Söngvakeppninnar, undankeppni Eurovision. Þættirnir Alla leið voru alls fjórir þar sem álitsgjafar voru fengnir til að spá í spilin fyrir Eurovision í Tel Aviv í Ísrael.

Samkvæmt lögum um Ríkisútvarpið er aðeins heimilt að kosta íburðarmikla dagskrárliði annars vegar og innlenda íþróttaviðburði og umfjöllun um þá hins vegar. Í niðurstöðu fjölmiðlanefndar kemur fram að nefndin telji þættina Alla leið og #12stig falla utan hugtaksins íburðarmikill dagskrárliður.

Í báðum tilfellum var það niðurstaða nefndarinnar að Ríkisútvarpið hefði brotið eigin lög. Var fallið frá sektarákvörðun í báðum málum.

Úrskurði fjölmiðlanefndar má lesa hér og hér.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×