Enski boltinn

Arsenal sagt vera á eftir Brasilíumanninum Marcelo

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Marcelo hefur unnið Meistaradeildina fjórum sinnum með Real Madrid.
Marcelo hefur unnið Meistaradeildina fjórum sinnum með Real Madrid. Getty/Chris Brunskill
Marcelo vill fara frá Real Madrid eftir þrettán tímabil hjá spænska félaginu og hann gæti endað í London samkvæmt fréttum frá Spáni.

Spænska blaðið Sport segir að Arsenal ætli að taka þátt í kapphlaupinu um Marcelo en fær þar mikla samkeppni frá liðum eins og Paris Saint-Germain, Juventus og AC Milan.

Marcelo er nú 31 árs gamall og hefur ekki spilað fyrir neitt annað evrópskt félag en Real Madrid. Nú finnst honum hins vegar vera kominn tími til að prófa eitthvað annað.





Það hjálpar líka mikið til að Real Madrid var að kaupa franska bakvörðinn Ferland Mendy frá Lyon fyrir 47 milljónir punda. Marcelo gæti því þurft að dúsa mikið á varamannabekknum á komandi tímabili verði hann áfram hjá Real.

Marcelo kom til Real Madrid frá Fluminense árið 2006 eða þegar hann var aðeins átján ára gamall. Marcelo hefur spilað 486 leiki fyrir Real Madrid á ferlinum og 58 landsleiki fyrir Brasilíu á sama tíma.

Hann hefur upplifað mikla velgengni með spænska félaginu og sigurinn í heimsmeistarakeppni félagsliða á síðasta tímabili var hans tuttugasti titil með Real Madrid.





Marcelo er nú í sumarfríi eftir að hafa misst sæti sitt í brasilíska landsliðinu. Hann var ekki valinn í hóp Brasilíu á Copa America.

Marcelo er ekki eini vinstri bakvörðurinn á óskalista Arsenal því enska félagið er einnig að forvitnast um Kieran Tierney hjá Celtic.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×