Viðskipti innlent

Kjarninn bætir við hluthöfum

Kjartan Kjartansson skrifar
Þórður Snær Júlíusson ritstjóri Kjarnans. Hann er einnig stofnandi og einn hluthafa miðilsins.
Þórður Snær Júlíusson ritstjóri Kjarnans. Hann er einnig stofnandi og einn hluthafa miðilsins. Vísir/Egill Aðalsteinsson
Tveir nýir hluthafa hafa bæst við eigendahóp útgáfufélags vefmiðilsins Kjarnans og Vísbendingar. Úlfar Erlingsson og Charlotta María Hauksdóttir annars vegar og eignarhaldsfélagið Vogabakkar ehf. keyptu 4,67 prósent hlut hvor.

Í frétt á vef Kjarnans kemur fram að útgáfufélagið Kjarninn miðlar ehf. hafi sjálft selt hlutina en það átti 6,25 prósent hlut í sjálfu sér. Þá hafi hlutafé þess verið aukið lítillega. Það á að nýta til að fjölga stöðugildum hjá Kjarnanum og styrkja starfsemi hans.

Eigendur Vogabakka eru Árni Hauksson og Hallbjörn Karlsson. Á vefsíðu félagsins segir að það einbeiti sér að vel reknum fyrirtækjum með góða rekstrarsögu en taki síður þátt í sprotafyrirtækjum eða verkefnum sem krefjast mikils viðsnúnings í rekstri.

Hluthafar Kjarnans eru eftir viðskiptin þrettán talsins. Stærsti einstaki hluthafinn er eftir sem áður HG80 ehf., félag Hjálmars Gíslasonar sem er einnig stjórnarformaður Kjarnans miðla. Það á 17,68 prósent hlut í útgáfufélaginu.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×