Erlent

Madrídar­búar mót­mæla aftur­köllun bíla­banns

Sylvía Hall skrifar
Mótmælendur létu hitabylgjuna ekki stoppa sig.
Mótmælendur létu hitabylgjuna ekki stoppa sig. Twitter
Þúsundir söfnuðust saman á götum Madrídarborgar í gær eftir að nýr borgarstjóri, José Luis Martínez-Almeida, afturkallaði bann við bílaumferð í miðborginni. Bannið, sem sett var á í nóvember, náði til flestra bensín og dísilbíla.

Þetta kemur fram á BBC en bannið hafði verið sett á í tíð fyrrverandi borgarstjóra, Manuelu Carmenu Castrillo, og var til þess fallið að halda loftmengun innan þeirra marka sem reglur Evrópusambandsins kveða á um. Voru ökumenn sem brutu gegn banninu sektaðir um níutíu evrur eða það sem jafngildir um þrettán þúsund íslenskum krónum.

Íbúar eru verulega ósáttir við þessa breytingu enda hafði bílabannið bæði dregið úr mengun og hávaða í borginni. Þá fóru fleiri að nýta sér hjólreiðar sem samgöngumáta líkt og lagt var upp með í upphafi.



Vill endurskoða áætlunina með hliðsjón af þörfum borgarbúa 

Hitabylgjan stoppaði mótmælendur ekki og söfnuðust þeir saman og kölluðu eftir því að sitjandi borgarstjóri myndi setja bannið aftur í gildi. Þrátt fyrir óánægju borgarbúa nýtur borgarstjórinn stuðnings annarra flokka sem eru mótfallnir banninu, en bannið var hluti af áætluninni „Madrid Central“.

Mælingar sýna að loftmengun í borginni náði sögulegu lágmarki eftir að bannið tók gildi. Mengun af völdum farartækja hafði ekki verið minni í maímánuði frá því að mælingar hófust árið 2010 en þeir bílar sem féllu undir bannið máttu ekki keyra inn á fimm ferkílómetra svæði í miðborginni.

Margir óttast að nýi borgarstjórinn muni ekki taka loftslagsmálin föstum tökum en hann segist vilja endurskoða áætlunina með hliðsjón af samgönguþörfum borgarbúa.

Leiðtogaráð Evrópusambandsins hefur varað borgaryfirvöld við því að mögulega komi til refsiaðgerða ef borgin heldur loftmengun ekki innan þeirra marka sem reglur Evrópusambandsins kveða á um.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×