Viðskipti innlent

VR afturkallar umboð stjórnarmanna félagsins í Lífeyrissjóði verzlunarmanna

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR.
Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR. Vísir/Vilhelm
Fulltrúaráð VR samþykkti í kvöld að afturkalla umboð stjórnarmanna VR í stjórn Lífeyrissjóðs verzlunarmanna. Tillaga um nýja stjórnarmenn til bráðabirgða var samþykkt.

Ástæðan er sú að stjórn VR telur að hækkun á vöxtum í sjóðsfélagalánum hjá Lífeyrissjóði verzlunarmanna vera trúnaðarbrest við félagið, stefnu þess og kjarasamningana sem voru undirritaðir í byrjun apríl. Fastir verðtryggðir vextir á lánum sjóðsins voru nýverið lækkaðir úr 3,6% niður í 3,4%. Á sama tíma voru breytilegir vextir verðtryggðra sjóðfélagalána hækkaðir úr 2,06% í 2,26%. Breytingin tekur gildi 1. ágúst næstkomandi.

Tillagan sem borin var upp á fulltrúaráðsfundinum í kvöld og samþykkt með 20 atkvæðum gegn 2 (2 sátu hjá) var eftirfarandi að því er fram kemur í tilkynningu frá VR.

„Fundur í fulltrúaráð VR hjá Lífeyrissjóði verzlunarmanna samþykkir að trúnaðarbrestur hafi orðið milli VR og stjórnarmanna VR í Lífeyrissjóð verzlunarmanna og að umboð aðal- og varamanna VR í Lífeyrissjóði verzlunarmanna er afturkallað.„

Borin var upp tillaga um að Bjarni Þór Sigurðsson, Guðríður Svana Bjarnadóttir, Helga Ingólfsdóttir, Stefán Sveinbjörnsson og tækju sæti í stjórn Lífeyrissjóðs verzlunarmanna til bráðabirgða og að Björn Kristjánsson, Oddur Gunnar Jónsson, Selma Árnadóttir, Sigríður Lovísa Jónsdóttir yrðu varamenn. Sú tillaga var samþykkt með 20 atkvæðum gegn 1, 3 sátu hjá.

Stjórn Lífeyrissjóðs verzlunarmanna hefur vísað fullyrðingum um annarlegan tilgang vaxtabreytinga sjóðsins til föðurhúsanna og segir að ákvarðanir um vaxtabreytingar taki sjóðurinn ætíð með hagsmuni sjóðfélaga og lántakenda að leiðarljósi, aldrei af græðgi, geðþótta, illkvittni eða til að ganga í berhögg við kjarasamninga.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×