Skoðun

Við gegn þeim

Haukur Örn Birgisson skrifar
Á sama tíma og ég hef mikinn á huga á stjórnmálum þá leiðist mér óskaplega stjórnmálatal. Þrasið og flokkadrættirnir eru óþolandi. Sendandi pakkans skiptir oft meira máli en innihaldið. Það er ekki sama hvaðan gott kemur og komi hugmyndin ekki úr réttri átt, skal hún felld. Stjórn gegn stjórnarandstöðu. Alltof margir falla í sömu gryfjuna og svo reyna þeir að klæða veiklulega afstöðu sína í tæknilegan búning, í viðleitni til að sannfæra sig sjálfa.

Við síðustu þinglok var frumvarp þingmanns Viðreisnar um breytingu á lögum um mannanöfn fellt á Alþingi. Frumvarpið gekk einkum út á að draga úr þeim takmörkunum sem núverandi lög setja fólki við val á sínum eigin nöfnum og barna sinna. Frumvarpið fól ekki beint í sér stórkostlegt hagsmunamál í stóra samhenginu en var engu að síður gott skref í rétta átt. Í átt að auknum sjálfsákvörðunarrétti fólks og minna stjórnlyndi.

Allir nema þrír þingmenn Sjálfstæðisflokksins greiddu atkvæði gegn frumvarpinu. Mátti helst skilja andstæðinga frumvarpsins þannig að vissulega væri þörf á því að breyta lögum um mannanöfn en þar sem þeim þótti frumvarpið ekki nógu vel útfært, gátu þeir ekki veitt því brautargengi. Í stað þess að leggja sjálfir fram breytingartillögu, felldu þeir frumvarpið. Yfir þessu hneyksluðust þingmenn Viðreisnar – skiljanlega.

Af því tilefni er hins vegar rétt að rifja upp að nýlega kusu borgarfulltrúar Viðreisnar ekki með tillögu borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokks um áskorun þess efnis að afnema ríkiseinokun á áfengissölu. Jafnvel þótt þingmenn Viðreisnar hafi á síðustu tveimur árum lagt fram frumvörp þess efnis. Einn þeirra er meira að segja borgarfulltrúi flokksins í dag. Yfir þessu hneyksluðust sjálfstæðismenn – skiljanlega. Furðuleg tík, pólitíkin.




Skoðun

Skoðun

BRCA

Elín Íris Fanndal Jónasdóttir skrifar

Sjá meira


×