Erlent

Skotin í magann og ákærð fyrir manndráp á fóstrinu sem hún missti

Kjartan Kjartansson skrifar
Kona klædd eins og þerna úr sjónvarpsþáttunum Saga þernunnar mótmælir þungunarrofsfrumvarpi fyrir utan ríkisþinghúsið Alabama. Ekki er ljóst hvort að ákæran um að ákæra Jones tengist strangari þungunarrofslögum í ríkinu.
Kona klædd eins og þerna úr sjónvarpsþáttunum Saga þernunnar mótmælir þungunarrofsfrumvarpi fyrir utan ríkisþinghúsið Alabama. Ekki er ljóst hvort að ákæran um að ákæra Jones tengist strangari þungunarrofslögum í ríkinu. Vísir/EPA
Ákærudómstóll í Alabama í Bandaríkjunum gaf út ákæru fyrir manndráp á hendur 27 ára gamalli konu sem missti fóstur þegar hún var skotin í magann. Mál á hendur konunni sem skaut hana var fellt niður.

Marshae Jones var komin fimm mánuði á leið þegar hún lenti í rifrildi við aðra konu fyrir utan lágvöruverðsverslun í Birmingham í desember. Lögreglan segir að rifrildið hafi snúist um barnsföður hennar. Því lauk með því að Ebony Jemison, 23 ára gömul kona, skaut Jones í magann. Jones lifði af en fóstrið ekki, að sögn Washington Post.

Engin ákæra var gefin út á hendur Jemison sem var upphaflega sökuð um manndráp. Lögreglan hélt því fram að Jones hafi átt upptökin að rifrildinu. Jemison hafi skotið Jones í sjálfsvörn. Fóstrið væri eina raunverulega fórnarlambið í málinu.

„Það var móðir barnsins [svo] sem hóf og hélt rifrildinu áfram sem leiddi til dauða ófædds barns hennar,“ sagði Danny Reid, liðsforingi í lögreglunni við staðarfréttasíðuna AL.com.

Nú hefur Jones verið ákærð fyrir manndráp og verður fangelsuð nema hún greiði 50.000 dollara í tryggingu, rúmar 6,2 milljónir íslenskra króna.

Reid heldur því fram að fóstrið hafi verið dregið óviljandi inn í rifrildið og að það hafi verið á ábyrgð móður þess að verja það.

Mál Jones hefur vakið reiði samtaka sem berjast fyrir rétti kvenna til þungunarrofs. Ríkisþing Alabama samþykkti nýlega afturhaldssömustu þungunarrofslög Bandaríkjanna. Samtökin telja að lögin geti haft áhrif á önnur sakamál sem tengjast ekki þungunarrofi.

Amanda Reyes, framkvæmdastjóri Yellowhammer-sjóðsins, segir að Alabama-ríki sýni með ákærunni að það líti svo á að eina hlutverk óléttra kvenna sé að eignast lifandi barn og að allt sem hún kynni að gera sem gæti komið í veg fyrir það sé glæpsamlegt.

„Á morgun verður það önnur svört kona, kannski fyrir að fá sér drykk á meðan hún er ólétt. Og eftir það, önnur, fyrir að fá ekki viðunandi meðgöngumeðferð,“ segir Reyes.


Tengdar fréttir

Þungunarrofslöggjöfin stranga í Alabama hluti af stærri mynd

Ríkisþingið í Alabama í Bandaríkjunum samþykkti í gær einhverja ströngustu þungunarrofslöggjöf sem fyrirfinnst í landinu. Löggjöfin bannar konum í öllum tilfellum að fara í fóstureyðingu nema að heilsu þeirra sé ógnað. Stjórnmálafræðingur segir þetta liður í stærra púsli til að hnekkja löggjöfinni fyrir hæstarétti Bandaríkjanna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×