Skoðun

Inni í tjaldi

Haukur Örn Birgisson skrifar
Erlendir vinir spurðu eitt sinn hvort við færum líka í útilegur á veturna eins og þeir. Þeir voru að fletta í gegnum mynda­albúm og sáu vinafólk okkar dúðað í teppi og ullarklæði fyrir framan kúlutjald. „Alls ekki, þessi mynd var tekin í byrjun júlí,“ var svarið.

Útilegur á Íslandi eru furðulegt fyrirbæri. Jafnvel óskiljanlegt. Að fólk skuli velja að gista utandyra í sjö gráðu hita (kulda), roki og yfirleitt einhvers konar úrkomu hlýtur að vera einhver tegund masókisma. Álíka rómantískt og hópefli í frystiklefa. Ísland er ekki hannað fyrir útilegur. Okkur er ætlað að gera annað utandyra en að sofa þar.

Fyrir hverja útilegu ríkir mikil spenna og við liggjum yfir veðurspánni. Það versta er hins var að á Íslandi er ekki hægt að spá fyrir um veðrið, einungis segja af því fréttir. Ef þið hugsið út í það, þá heitir dagskrárliðurinn í fjölmiðlunum „veðurfréttir“ en ekki „veðurspá“. Það er engin tilviljun. Íslenskir veðurfræðingar vita bara hvernig veðrið var áðan. Það er útilokað að segja til um hvernig það verður á eftir.

Í útilegunni sjálfri er svo ekki rætt um neitt annað en veðrið. Stundum er það geggjað og það eru augnablikin sem við leggjum á minnið. En geggjaða veðrið varir skammt. „Hann er að fara að snúa sér,“ heyrist brátt í einhverjum stuttbuxnaklæddum manni í dúnúlpu og sandölum. Svo breytist vindáttin og pappadiskarnir fjúka af borðinu. Pikknikkið dreifist um grasið og við leitum skjóls í fortjaldinu.

Það er yfirleitt ekki langt liðið á sunnudagsmorguninn þegar klassískasta setning íslenskrar útilegumenningar fer að óma um tjaldsvæðið: „Jæja, eigum við ekki að fara að bruna í bæinn?“




Skoðun

Skoðun

Þöggun

Guðbjörg Ása Jóns Huldudóttir,Margrét Kristín Blöndal,Margrét Rut Eddudóttir,Lukka Sigurðardóttir,Sigtryggur Ari Jóhannsson,Halldóra Jóhanna Hafsteins Âû skrifar

Sjá meira


×