Öll störf eru mikilvæg Kristjana Björg Guðbrandsdóttir skrifar 15. júní 2019 07:15 "Er það öryggi að skulda mikið?“ spyr Eygló Harðardóttir sem segir hugmynd sína um gott heimili snúast um líðan og gott fjölskyldulíf frekar en eignarhald. fréttablaðið/sigtryggur Við stefnum á að tyrfa þakið í sumar,“ segir Eygló Harðardóttir og tekur á móti blaðamanni í húsi sínu sem er í byggingu í Mosfellsbæ. Eiginmaður hennar, Sigurður E. Vilhelmsson, er líka heima, heilsar en hverfur svo frá í framkvæmdirnar. Eygló er í stuttu fríi að hlaða batteríin en svo fer hún aftur á Hótel Sögu þar sem hún er í starfsnámi sem matreiðslunemi.Nútímalegur torfbær „Þetta verður nútímalegur torfbær, við fluttum inn í október 2017, í sama mánuði og ég hætti á Alþingi. Við höfðum áður haldið til í hjólhýsi fyrir utan húsið en það var orðið kalt og vindasamt. Þegar kisurnar okkar voru flúnar inn í hús komum við á eftir,“ segir Eygló og hlær. Þótt húsið sé í raun enn byggingarsvæði er afar notalegt um að litast og allt til alls. „Hér er bráðabirgðaeldhús sem ég smíðaði úr afgangsmótatimbri, salerni og sturta en við vorum ekki með sturtuna í hálft ár eftir að við fluttum inn og fórum bara í sund á hverjum degi. Nú er eitt herbergi í húsinu nánast alveg tilbúið eins og við viljum hafa það, og það er svefnherbergið,“ segir Eygló og býður til sætis í stofunni þar sem eru stórir gluggar á tvo vegu. Útsýnið er fallegt, í garðinum hefur Eygló sett niður matjurtir og köttur læðist sældarlegur um í grasinu. „Nú er Siggi að ganga frá þakköntum og búa þakið undir torfið. Þar kemur annað lag af dúk og svo takkadúkur sem er til þess að halda vatni svo torfið verði ekki of þurrt. Þar ofan á kemur loks þrefalt lag af torfi,“ segir Eygló um næstu skref í byggingarframkvæmdunum.Eygló við húsið sem hún byggir með eiginmanni sínum, Sigurði E. Vilhelmssyni, í Mosfellsbæ. Þau tóku bæði áfanga í húsasmíði í FB áður en hafist var handa.Er það öryggi að skulda mikið? Eygló og Sigurður eiga tvær dætur, þrettán og nítján ára. Þau hafa verið saman í 22 ár og giftu sig árið 2000, sama ár og eldri dóttir þeirra fæddist. „Við vorum bæði í FB en kynntumst reyndar ekki í skólanum, yngri systir hans er vinkona mín. Við höfum reynt ýmislegt á húsnæðismarkaðnum en alltaf liðið vel,“ segir Eygló. „Ég hef verið á leigumarkaði, ég hef líka átt húsnæði en þá fannst mér ég bara vera að leigja af Íbúðalánasjóði. Áður en við fluttum hingað þá bjuggum við í Hafnarfirði í miðbænum á rólegum stað og það var mjög fínt. Þar áður leigðum við litla íbúð í Vesturbænum vegna þingstarfanna en fórum heim um helgar til Vestmannaeyja á meðan ég var þingmaður Suðurkjördæmis þar sem við áttum gamalt hús. Það fannst okkur líka mjög fínt,“ segir Eygló og segist halda að það séu aðrir hlutir mikilvægari þegar kemur að hamingju heimilisins en eignarhald. Hún segist aðspurð ekki hafa fundið fyrir meira öryggi þegar hún átti sitt eigið húsnæði en þegar hún var á leigumarkaði. „Því hvað er öryggi? Er það öryggi að skulda rosalega mikið? Áskorun að byggja Það er ekki alltaf þannig að fólk eigi húsin sín, mér finnst stundum eins og húsið eigi fólkið sem býr í því,“ segir Eygló og segir sérstakan anda og stemningu fylgja hverjum íverustað. Það er fyrst og fremst áskorun að byggja og frábært að fá tækifæri til þess. Eftir því sem ég er meira í byggingarframkvæmdum, hvort sem það er hér heima eða fyrir Kvennaathvarfið, þá eykst virðing mín fyrir þeim sem starfa í þessum iðnaði. Ég skil núna miklu betur af hverju framkvæmdir taka oft langan tíma, það eru mörg handverk á bak við hvern einasta hlut sem þarf að gera.“ Eygló hefur nóg fyrir stafni því auk þess að vinna á hefðbundnum tólf tíma vöktum við matreiðslu á Hótel Sögu stýrir hún undirbúningi og framkvæmdum við fjölbýlishús fyrir Kvennaathvarfið og er stjórnarformaður Lánasjóðs íslenskra námsmanna. Fastar í athvarfinu Eygló rifjar upp að þegar hún var félags- og húsnæðismálaráðherra hafi Sigþrúður Guðmundsdóttir, framkvæmdastýra Kvennaathvarfsins, komið til hennar í ráðuneytið og rætt við hana stöðuna í athvarfinu. „Hún greindi mér frá aukinni aðsókn í Kvennaathvarfið og að konur þyrftu að dvelja þar sífellt lengur vegna erfiðrar stöðu á húsnæðismarkaði. Því þegar kona fer út af heimili sínu vegna ofbeldis er hún heimilislaus. Þegar hún er tilbúin til þess að fara úr athvarfinu þarf hún að finna sér annað heimili og oft að byrja frá grunni, tekur sjaldnast neitt með sér nema börnin og kannski einhverjar flíkur. Sigþrúður greindi mér frá því að konurnar ættu í miklum erfiðleikum með að finna sér húsnæði. Og hvort sem það var hringt úr athvarfinu eða konurnar hringdu sjálfar voru leigusalar hikandi. Margar þessara kvenna eru af erlendum uppruna og því ekki með sama tengslanetið, það getur verið stór hindrun,“ segir Eygló og segist hafa farið í að skoða úrræði í heiminum fyrir konur í þessari stöðu. Af hverju byggið þið ekki bara? „Ég las lokaritgerð Thelmu Guðmundsdóttur félagsráðgjafa, sem starfar í Kvennaathvarfinu, um stöðu þessara kvenna þar sem niðurstaðan var að peningaleysi og skortur á húsnæði væru helstu hindranir fyrir því að konur öðlist sjálfstæði eftir ofbeldissamband. Í ritgerðinni kynnti hún úrræði þar sem þolendur fá eigið húsnæði, borga leigu og fá stuðning félagsráðgjafa til að byggja upp líf sitt aftur. Mér fannst þetta áhugaverð leið og fór að leita upplýsinga. Ég fann samtök í Kanada sem buðu upp á mjög fjölbreytt húsnæði fyrir konur sem hafa verið beittar ofbeldi, byggðu og ráku það sjálfar. Sigþrúður segir að ég hafi sagt við hana í kjölfarið: Af hverju byggið þið ekki bara? Og mér skilst að hún hafi ekki verið alveg nógu sátt við mig eftir þennan fund,“ segir Eygló og brosir að minningunni og segir að sem betur fer hafi Sigþrúður ekki verið ósátt við hana lengi. „Því stuttu eftir að ég hætti í ráðuneytinu bankaði ég upp á hjá henni og spurði hana hvort ég mætti ekki hjálpa henni að gera þetta að raunveruleika. Og hún sagði bara; Jú! Og svo sagði öll stjórn Kvennaathvarfsins líka jú. Byrjum og sjáum hvar við endum!“Fá stjórn yfir eigin lífi Eygló segist hafa hrifist af starfi Kvennaathvarfsins og þeim jákvæða baráttuanda sem þar ríkir. „Ég fékk góða innsýn í reksturinn þegar ég var á þingi og í ráðuneytinu. Ég heimsótti athvarfið og starfsmenn þess ná að búa þeim sem sækja athvarfið gott umhverfi sem stuðlar að vellíðan. Mjög margir mættu taka Sigþrúði og hennar fólk sér til fyrirmyndar. Þau eru svo jákvæð, gefast aldrei upp og sjá alltaf tækifæri fyrir sitt fólk,“ segir hún og segir mikilvægt að íbúðirnar sem eru í byggingu stuðli að sjálfstæði kvennanna og betra lífi. „Íbúðirnar verða að vera heimili þeirra. Það er rík áhersla lögð á það. Þær flytjast í íbúðirnar þegar þær eru ekki lengur í hættu vegna ofbeldisins. Þær leigja íbúðina og stýra sínu lífi með aðstoð frá góðum ráðgjöfum og öðrum fjölskyldum í húsinu sem hafa gengið í gegnum sömu hluti.“ Eygló segir byggingu hússins fyrst hafa orðið raunhæfa þegar Gróa Ásgeirsdóttir, Guðný Pálsdóttir og Elísabet Sveinsdóttir sem standa að kynningar- og fjáröflunarátakinu; Á allra vörum, hafi ákveðið að taka málefnið fyrir. Í söfnunarþætti fyrir byggingu hússins söfnuðust 80 milljón krónur. „Við erum ofboðslega þakklátar því átakið gerði það að verkum að byggingin varð að raunveruleika. Þær fengu meira að segja borgarstjóra til að gefa lóð undir bygginguna sem verður á góðum stað miðsvæðis í borginni nálægt stærstu vinnustöðum og skólum landsins,“ segir Eygló. Fleiri hafa stutt við verkefnið, þar á meðal Íbúðalánasjóður með stofnframlagi í gegnum Almenna íbúðakerfið, Soroptimistar og fleiri, og nú síðast gáfu Oddfellowar athvarfinu andvirði tveggja heilla íbúða og rúm í allt húsið. „Við vorum að fá samþykkta umsókn okkar um byggingaráform, hún var samþykkt í byrjun maí og nú erum við að taka saman gögn til að fá framkvæmdaleyfi,“ segir Eygló og dregur fram þykkan bunka af skjölum og teikningum af stofuborðinu. „Næst er það framkvæmdaleyfið og að ljúka við verksamning við verktaka. Forsenda fyrir því að við getum boðið lága leigu er að framkvæmdin sé hagkvæm, það er því að miklu að huga.“ Er enn hægt að leggja byggingunni lið með einhverjum hætti? „Já, allur stuðningur við Kvennaathvarfið nýtist á einhvern máta, til góðra verka og eykur líkur á að vel takist til við þetta stóra verkefni.“ Það er líf eftir stjórnmál Það eru liðin tvö ár síðan Eygló hætti á Alþingi. Þegar boðað var til kosninga í október 2017 ákvað hún að gefa ekki kost á sér. Hún segist alltaf hafa verið sannfærð um að þingmennska eigi ekki að vera ævistarf og að þingmenn skuli ekki sitja lengur en átta ár samfellt á Alþingi. Hún var félags- og húsnæðismálaráðherra frá árinu 2013-2017 og lét þar við sitja. „Alþingi er sá vinnustaður sem ég hef stoppað hvað lengst á. Þegar boðað var til kosninga haustið 2017 fannst mér rétt að stíga til hliðar. Ég vissi að það var góður maður í kjördæminu sem gat tekið við. Sannfæring mín fyrir því að þingmenn eigi ekki að sitja lengur en átta ár hefur ekki breyst. Það er ekki hollt að stoppa of lengi á þingi. Það er mikilvægt að hafa ákveðna þekkingu og reynslu til staðar en á sama tíma er endurnýjun nauðsynleg,“ segir Eygló. Hún fær oft þá spurningu hvort hún sé ekki fegin að vera laus við málþófið, við þingið. „Og þá segi ég nei, því mér fannst mjög gaman á þingi, bæði í stjórnarandstöðu og stjórn. Það eru forréttindi að vera treyst fyrir þessu starfi, hvað þá heilu ráðuneyti. Á Alþingi starfar frábært fólk sem heldur vel utan um þingmennina, þetta er frábær vinnustaður. Og hentaði mér vel því ég er mjög verkefnamiðuð. Vil fara markvisst í verkefni, klára þau og ná árangri og fara svo í næsta mál. Það er mikilvægt að muna að það er líf eftir stjórnmál. Ég fór ekki úr stjórnmálum til þess að gera eitthvað skemmtilegra. Ég fór af því ég vildi gera eitthvað annað skemmtilegt, ég hef mikla þörf fyrir að prófa nýja hluti og fara í ný verkefni og hef alltaf verið þannig að upplagi,“ segir Eygló. Úr sjálfboðavinnu í starfsnám En hvernig kom það til að fara í matreiðslunám? „Hugmyndin að því að fara í matreiðslunám kviknaði í eldhúsinu á Kaffistofu Samhjálpar hjá honum Bjarna snæðingi. Ég var í sjálfboðavinnu hjá honum um skeið og leitaði ráða um hvert ég ætti að fara í starfsnám. Hann mælti með Hótel Sögu og snilldarkokkunum þar. Meistarinn minn er Ólafur Helgi Kristjánsson, yfirkokkur á Hótel Sögu, og er alveg frábær,“ segir Eygló sem stefnir á að klára sveinsprófið fyrir fimmtugt. „Mér finnst bara svo rosalega gaman að elda mat og borða hann líka,“ segir Eygló og skellir upp úr. „Ég byrjaði að elda þegar ég var níu ára gömul, fannst móðir mín ekki standa sig alveg nógu vel í eldamennskunni. Hún var nú bara mjög fegin þessum áhuga mínum því henni leiðist oft að elda. Þetta er einn af mínum styrkleikum og ef maður hefur gæfu til þá reynir maður að rækta þá,“ segir Eygló. Kokkanámið tekur fjögur ár og er bæði starfsnám og þrjár annir í Menntaskólanum í Kópavogi. Hún segist njóta þess að vera í náminu þrátt fyrir langan vinnudag. „Þetta er fjölbreytt og spennandi starf og maður vinnur með flottu fólki hvaðanæva úr heiminum. Ég vinn tólf tíma vaktir, vinn í tvo daga, frí í tvo daga og svo vinn ég í þrjá daga. Þannig eru hefðbundnar kokkavaktir, svo snýst rútínan við vikunni á eftir. Auðvitað er þetta álag og púsluspil en mér líður vel og þegar ég er undir miklu álagi þá er það merkilegt að mér finnst best að ná jafnvægi með því að elda góðan mat hér heima.“ Af hverju ekki? Eygló velti því fyrir sér áður en hún skráði sig til náms að læra húsasmíði. „Ég hef mikinn áhuga á húsnæðismálum og sótti námskeið í FB með Sigga áður en við byrjuðum að byggja, til að læra á tækin og svona. En svo áttaði ég mig nú á því að styrkleikar hans voru meiri í þessu fagi. Mínir voru í að elda mat og af hverju ekki? Af hverju ekki að breyta til og læra eitthvað nýtt sem manni fellur vel og hefur mikinn áhuga á?“ Nú hefur verið mikil umræða um að iðnnám megi ekki loka leiðum til háskólanáms. „Það er mjög jákvætt og tímabært en ég myndi gjarnan vilja fá umræðu líka um fólk með háskólapróf sem langar í iðnnám, kannski alltaf viljað fara í iðnnám en skilaboðin voru að allir yrðu að fara í bóknám og í háskóla. Við getum gert enn betur í að auðvelda fólki að fara í iðnnám og hvetja það betur áfram í það,“ segir Eygló og segist enn verða vör við það að foreldrar beini börnum sínum frekar í bóknám en iðnnám. „Þetta þarf að breytast. Við erum öll svo ólík og við þurfum að bera meiri virðingu fyrir því í samfélaginu. Öll störf eru mikilvæg.“ Birtist í Fréttablaðinu Mosfellsbær Mest lesið „Gæti stofnað nýjan stjórnmálaflokk og búið til podcast þátt“ Lífið Herra Hnetusmjör með stærsta lag ársins Tónlist Orri Steinn og Sylvía Rós eiga von á stúlku Lífið Dísella „loksins“ trúlofuð Lífið Angus MacInnes er látinn Lífið Pitt og Jolie loksins skilin Lífið Álfurinn á slæmum stað: „Þetta voru erfið jól“ Lífið Steindi og Saga í stjörnuprýddum skets um typpalokk Lífið Jólagjafir íslenskra vinnustaða Lífið Dóra Júlía og Bára gengu í það heilaga Lífið Fleiri fréttir „Gæti stofnað nýjan stjórnmálaflokk og búið til podcast þátt“ Orri Steinn og Sylvía Rós eiga von á stúlku Angus MacInnes er látinn Pitt og Jolie loksins skilin Álfurinn á slæmum stað: „Þetta voru erfið jól“ Innblástur fyrir áramótapartýið Eftirréttur ársins að hætti Elenoru Dísella „loksins“ trúlofuð Steindi og Saga í stjörnuprýddum skets um typpalokk Sonur Völu og Óskars Loga kominn með nafn Stjörnulífið: Svona voru jólin hjá stjörnum landsins Æskudraumurinn varð að veruleika Dóra Júlía og Bára gengu í það heilaga Blökastið hringir inn nýja árið með Nýársbingó Viðtöl ársins 2024: Óvænt andlát, ófrjósemi og flutningar til Bandaríkjanna Margmenni í Bláfjöllum Andrew Garfield á Íslandi Katrín Tanja trúlofuð Steven og Guðný Ósk eru nýtt par Fræga fólkið streymdi á hápunkt ársins í Þjóðleikhúsinu Sjáðu Sandler snúa aftur sem Happy Gilmore í nýrri kitlu Björn Ingi leikur í ofurhetjumynd Eiga nú glöðustu hunda í heimi Lést eftir að hafa fallið úr bíl á ferð Brúðkaup ársins 2024 Bestu, stærstu, slökustu og verstu myndir ársins 2024 Króli trúlofaður Jólagjafir íslenskra vinnustaða Jólagjöf ársins er stóllinn sem getur allt nema flogið Besta jólagjöfin að sjá bata foreldranna Sjá meira
Við stefnum á að tyrfa þakið í sumar,“ segir Eygló Harðardóttir og tekur á móti blaðamanni í húsi sínu sem er í byggingu í Mosfellsbæ. Eiginmaður hennar, Sigurður E. Vilhelmsson, er líka heima, heilsar en hverfur svo frá í framkvæmdirnar. Eygló er í stuttu fríi að hlaða batteríin en svo fer hún aftur á Hótel Sögu þar sem hún er í starfsnámi sem matreiðslunemi.Nútímalegur torfbær „Þetta verður nútímalegur torfbær, við fluttum inn í október 2017, í sama mánuði og ég hætti á Alþingi. Við höfðum áður haldið til í hjólhýsi fyrir utan húsið en það var orðið kalt og vindasamt. Þegar kisurnar okkar voru flúnar inn í hús komum við á eftir,“ segir Eygló og hlær. Þótt húsið sé í raun enn byggingarsvæði er afar notalegt um að litast og allt til alls. „Hér er bráðabirgðaeldhús sem ég smíðaði úr afgangsmótatimbri, salerni og sturta en við vorum ekki með sturtuna í hálft ár eftir að við fluttum inn og fórum bara í sund á hverjum degi. Nú er eitt herbergi í húsinu nánast alveg tilbúið eins og við viljum hafa það, og það er svefnherbergið,“ segir Eygló og býður til sætis í stofunni þar sem eru stórir gluggar á tvo vegu. Útsýnið er fallegt, í garðinum hefur Eygló sett niður matjurtir og köttur læðist sældarlegur um í grasinu. „Nú er Siggi að ganga frá þakköntum og búa þakið undir torfið. Þar kemur annað lag af dúk og svo takkadúkur sem er til þess að halda vatni svo torfið verði ekki of þurrt. Þar ofan á kemur loks þrefalt lag af torfi,“ segir Eygló um næstu skref í byggingarframkvæmdunum.Eygló við húsið sem hún byggir með eiginmanni sínum, Sigurði E. Vilhelmssyni, í Mosfellsbæ. Þau tóku bæði áfanga í húsasmíði í FB áður en hafist var handa.Er það öryggi að skulda mikið? Eygló og Sigurður eiga tvær dætur, þrettán og nítján ára. Þau hafa verið saman í 22 ár og giftu sig árið 2000, sama ár og eldri dóttir þeirra fæddist. „Við vorum bæði í FB en kynntumst reyndar ekki í skólanum, yngri systir hans er vinkona mín. Við höfum reynt ýmislegt á húsnæðismarkaðnum en alltaf liðið vel,“ segir Eygló. „Ég hef verið á leigumarkaði, ég hef líka átt húsnæði en þá fannst mér ég bara vera að leigja af Íbúðalánasjóði. Áður en við fluttum hingað þá bjuggum við í Hafnarfirði í miðbænum á rólegum stað og það var mjög fínt. Þar áður leigðum við litla íbúð í Vesturbænum vegna þingstarfanna en fórum heim um helgar til Vestmannaeyja á meðan ég var þingmaður Suðurkjördæmis þar sem við áttum gamalt hús. Það fannst okkur líka mjög fínt,“ segir Eygló og segist halda að það séu aðrir hlutir mikilvægari þegar kemur að hamingju heimilisins en eignarhald. Hún segist aðspurð ekki hafa fundið fyrir meira öryggi þegar hún átti sitt eigið húsnæði en þegar hún var á leigumarkaði. „Því hvað er öryggi? Er það öryggi að skulda rosalega mikið? Áskorun að byggja Það er ekki alltaf þannig að fólk eigi húsin sín, mér finnst stundum eins og húsið eigi fólkið sem býr í því,“ segir Eygló og segir sérstakan anda og stemningu fylgja hverjum íverustað. Það er fyrst og fremst áskorun að byggja og frábært að fá tækifæri til þess. Eftir því sem ég er meira í byggingarframkvæmdum, hvort sem það er hér heima eða fyrir Kvennaathvarfið, þá eykst virðing mín fyrir þeim sem starfa í þessum iðnaði. Ég skil núna miklu betur af hverju framkvæmdir taka oft langan tíma, það eru mörg handverk á bak við hvern einasta hlut sem þarf að gera.“ Eygló hefur nóg fyrir stafni því auk þess að vinna á hefðbundnum tólf tíma vöktum við matreiðslu á Hótel Sögu stýrir hún undirbúningi og framkvæmdum við fjölbýlishús fyrir Kvennaathvarfið og er stjórnarformaður Lánasjóðs íslenskra námsmanna. Fastar í athvarfinu Eygló rifjar upp að þegar hún var félags- og húsnæðismálaráðherra hafi Sigþrúður Guðmundsdóttir, framkvæmdastýra Kvennaathvarfsins, komið til hennar í ráðuneytið og rætt við hana stöðuna í athvarfinu. „Hún greindi mér frá aukinni aðsókn í Kvennaathvarfið og að konur þyrftu að dvelja þar sífellt lengur vegna erfiðrar stöðu á húsnæðismarkaði. Því þegar kona fer út af heimili sínu vegna ofbeldis er hún heimilislaus. Þegar hún er tilbúin til þess að fara úr athvarfinu þarf hún að finna sér annað heimili og oft að byrja frá grunni, tekur sjaldnast neitt með sér nema börnin og kannski einhverjar flíkur. Sigþrúður greindi mér frá því að konurnar ættu í miklum erfiðleikum með að finna sér húsnæði. Og hvort sem það var hringt úr athvarfinu eða konurnar hringdu sjálfar voru leigusalar hikandi. Margar þessara kvenna eru af erlendum uppruna og því ekki með sama tengslanetið, það getur verið stór hindrun,“ segir Eygló og segist hafa farið í að skoða úrræði í heiminum fyrir konur í þessari stöðu. Af hverju byggið þið ekki bara? „Ég las lokaritgerð Thelmu Guðmundsdóttur félagsráðgjafa, sem starfar í Kvennaathvarfinu, um stöðu þessara kvenna þar sem niðurstaðan var að peningaleysi og skortur á húsnæði væru helstu hindranir fyrir því að konur öðlist sjálfstæði eftir ofbeldissamband. Í ritgerðinni kynnti hún úrræði þar sem þolendur fá eigið húsnæði, borga leigu og fá stuðning félagsráðgjafa til að byggja upp líf sitt aftur. Mér fannst þetta áhugaverð leið og fór að leita upplýsinga. Ég fann samtök í Kanada sem buðu upp á mjög fjölbreytt húsnæði fyrir konur sem hafa verið beittar ofbeldi, byggðu og ráku það sjálfar. Sigþrúður segir að ég hafi sagt við hana í kjölfarið: Af hverju byggið þið ekki bara? Og mér skilst að hún hafi ekki verið alveg nógu sátt við mig eftir þennan fund,“ segir Eygló og brosir að minningunni og segir að sem betur fer hafi Sigþrúður ekki verið ósátt við hana lengi. „Því stuttu eftir að ég hætti í ráðuneytinu bankaði ég upp á hjá henni og spurði hana hvort ég mætti ekki hjálpa henni að gera þetta að raunveruleika. Og hún sagði bara; Jú! Og svo sagði öll stjórn Kvennaathvarfsins líka jú. Byrjum og sjáum hvar við endum!“Fá stjórn yfir eigin lífi Eygló segist hafa hrifist af starfi Kvennaathvarfsins og þeim jákvæða baráttuanda sem þar ríkir. „Ég fékk góða innsýn í reksturinn þegar ég var á þingi og í ráðuneytinu. Ég heimsótti athvarfið og starfsmenn þess ná að búa þeim sem sækja athvarfið gott umhverfi sem stuðlar að vellíðan. Mjög margir mættu taka Sigþrúði og hennar fólk sér til fyrirmyndar. Þau eru svo jákvæð, gefast aldrei upp og sjá alltaf tækifæri fyrir sitt fólk,“ segir hún og segir mikilvægt að íbúðirnar sem eru í byggingu stuðli að sjálfstæði kvennanna og betra lífi. „Íbúðirnar verða að vera heimili þeirra. Það er rík áhersla lögð á það. Þær flytjast í íbúðirnar þegar þær eru ekki lengur í hættu vegna ofbeldisins. Þær leigja íbúðina og stýra sínu lífi með aðstoð frá góðum ráðgjöfum og öðrum fjölskyldum í húsinu sem hafa gengið í gegnum sömu hluti.“ Eygló segir byggingu hússins fyrst hafa orðið raunhæfa þegar Gróa Ásgeirsdóttir, Guðný Pálsdóttir og Elísabet Sveinsdóttir sem standa að kynningar- og fjáröflunarátakinu; Á allra vörum, hafi ákveðið að taka málefnið fyrir. Í söfnunarþætti fyrir byggingu hússins söfnuðust 80 milljón krónur. „Við erum ofboðslega þakklátar því átakið gerði það að verkum að byggingin varð að raunveruleika. Þær fengu meira að segja borgarstjóra til að gefa lóð undir bygginguna sem verður á góðum stað miðsvæðis í borginni nálægt stærstu vinnustöðum og skólum landsins,“ segir Eygló. Fleiri hafa stutt við verkefnið, þar á meðal Íbúðalánasjóður með stofnframlagi í gegnum Almenna íbúðakerfið, Soroptimistar og fleiri, og nú síðast gáfu Oddfellowar athvarfinu andvirði tveggja heilla íbúða og rúm í allt húsið. „Við vorum að fá samþykkta umsókn okkar um byggingaráform, hún var samþykkt í byrjun maí og nú erum við að taka saman gögn til að fá framkvæmdaleyfi,“ segir Eygló og dregur fram þykkan bunka af skjölum og teikningum af stofuborðinu. „Næst er það framkvæmdaleyfið og að ljúka við verksamning við verktaka. Forsenda fyrir því að við getum boðið lága leigu er að framkvæmdin sé hagkvæm, það er því að miklu að huga.“ Er enn hægt að leggja byggingunni lið með einhverjum hætti? „Já, allur stuðningur við Kvennaathvarfið nýtist á einhvern máta, til góðra verka og eykur líkur á að vel takist til við þetta stóra verkefni.“ Það er líf eftir stjórnmál Það eru liðin tvö ár síðan Eygló hætti á Alþingi. Þegar boðað var til kosninga í október 2017 ákvað hún að gefa ekki kost á sér. Hún segist alltaf hafa verið sannfærð um að þingmennska eigi ekki að vera ævistarf og að þingmenn skuli ekki sitja lengur en átta ár samfellt á Alþingi. Hún var félags- og húsnæðismálaráðherra frá árinu 2013-2017 og lét þar við sitja. „Alþingi er sá vinnustaður sem ég hef stoppað hvað lengst á. Þegar boðað var til kosninga haustið 2017 fannst mér rétt að stíga til hliðar. Ég vissi að það var góður maður í kjördæminu sem gat tekið við. Sannfæring mín fyrir því að þingmenn eigi ekki að sitja lengur en átta ár hefur ekki breyst. Það er ekki hollt að stoppa of lengi á þingi. Það er mikilvægt að hafa ákveðna þekkingu og reynslu til staðar en á sama tíma er endurnýjun nauðsynleg,“ segir Eygló. Hún fær oft þá spurningu hvort hún sé ekki fegin að vera laus við málþófið, við þingið. „Og þá segi ég nei, því mér fannst mjög gaman á þingi, bæði í stjórnarandstöðu og stjórn. Það eru forréttindi að vera treyst fyrir þessu starfi, hvað þá heilu ráðuneyti. Á Alþingi starfar frábært fólk sem heldur vel utan um þingmennina, þetta er frábær vinnustaður. Og hentaði mér vel því ég er mjög verkefnamiðuð. Vil fara markvisst í verkefni, klára þau og ná árangri og fara svo í næsta mál. Það er mikilvægt að muna að það er líf eftir stjórnmál. Ég fór ekki úr stjórnmálum til þess að gera eitthvað skemmtilegra. Ég fór af því ég vildi gera eitthvað annað skemmtilegt, ég hef mikla þörf fyrir að prófa nýja hluti og fara í ný verkefni og hef alltaf verið þannig að upplagi,“ segir Eygló. Úr sjálfboðavinnu í starfsnám En hvernig kom það til að fara í matreiðslunám? „Hugmyndin að því að fara í matreiðslunám kviknaði í eldhúsinu á Kaffistofu Samhjálpar hjá honum Bjarna snæðingi. Ég var í sjálfboðavinnu hjá honum um skeið og leitaði ráða um hvert ég ætti að fara í starfsnám. Hann mælti með Hótel Sögu og snilldarkokkunum þar. Meistarinn minn er Ólafur Helgi Kristjánsson, yfirkokkur á Hótel Sögu, og er alveg frábær,“ segir Eygló sem stefnir á að klára sveinsprófið fyrir fimmtugt. „Mér finnst bara svo rosalega gaman að elda mat og borða hann líka,“ segir Eygló og skellir upp úr. „Ég byrjaði að elda þegar ég var níu ára gömul, fannst móðir mín ekki standa sig alveg nógu vel í eldamennskunni. Hún var nú bara mjög fegin þessum áhuga mínum því henni leiðist oft að elda. Þetta er einn af mínum styrkleikum og ef maður hefur gæfu til þá reynir maður að rækta þá,“ segir Eygló. Kokkanámið tekur fjögur ár og er bæði starfsnám og þrjár annir í Menntaskólanum í Kópavogi. Hún segist njóta þess að vera í náminu þrátt fyrir langan vinnudag. „Þetta er fjölbreytt og spennandi starf og maður vinnur með flottu fólki hvaðanæva úr heiminum. Ég vinn tólf tíma vaktir, vinn í tvo daga, frí í tvo daga og svo vinn ég í þrjá daga. Þannig eru hefðbundnar kokkavaktir, svo snýst rútínan við vikunni á eftir. Auðvitað er þetta álag og púsluspil en mér líður vel og þegar ég er undir miklu álagi þá er það merkilegt að mér finnst best að ná jafnvægi með því að elda góðan mat hér heima.“ Af hverju ekki? Eygló velti því fyrir sér áður en hún skráði sig til náms að læra húsasmíði. „Ég hef mikinn áhuga á húsnæðismálum og sótti námskeið í FB með Sigga áður en við byrjuðum að byggja, til að læra á tækin og svona. En svo áttaði ég mig nú á því að styrkleikar hans voru meiri í þessu fagi. Mínir voru í að elda mat og af hverju ekki? Af hverju ekki að breyta til og læra eitthvað nýtt sem manni fellur vel og hefur mikinn áhuga á?“ Nú hefur verið mikil umræða um að iðnnám megi ekki loka leiðum til háskólanáms. „Það er mjög jákvætt og tímabært en ég myndi gjarnan vilja fá umræðu líka um fólk með háskólapróf sem langar í iðnnám, kannski alltaf viljað fara í iðnnám en skilaboðin voru að allir yrðu að fara í bóknám og í háskóla. Við getum gert enn betur í að auðvelda fólki að fara í iðnnám og hvetja það betur áfram í það,“ segir Eygló og segist enn verða vör við það að foreldrar beini börnum sínum frekar í bóknám en iðnnám. „Þetta þarf að breytast. Við erum öll svo ólík og við þurfum að bera meiri virðingu fyrir því í samfélaginu. Öll störf eru mikilvæg.“
Birtist í Fréttablaðinu Mosfellsbær Mest lesið „Gæti stofnað nýjan stjórnmálaflokk og búið til podcast þátt“ Lífið Herra Hnetusmjör með stærsta lag ársins Tónlist Orri Steinn og Sylvía Rós eiga von á stúlku Lífið Dísella „loksins“ trúlofuð Lífið Angus MacInnes er látinn Lífið Pitt og Jolie loksins skilin Lífið Álfurinn á slæmum stað: „Þetta voru erfið jól“ Lífið Steindi og Saga í stjörnuprýddum skets um typpalokk Lífið Jólagjafir íslenskra vinnustaða Lífið Dóra Júlía og Bára gengu í það heilaga Lífið Fleiri fréttir „Gæti stofnað nýjan stjórnmálaflokk og búið til podcast þátt“ Orri Steinn og Sylvía Rós eiga von á stúlku Angus MacInnes er látinn Pitt og Jolie loksins skilin Álfurinn á slæmum stað: „Þetta voru erfið jól“ Innblástur fyrir áramótapartýið Eftirréttur ársins að hætti Elenoru Dísella „loksins“ trúlofuð Steindi og Saga í stjörnuprýddum skets um typpalokk Sonur Völu og Óskars Loga kominn með nafn Stjörnulífið: Svona voru jólin hjá stjörnum landsins Æskudraumurinn varð að veruleika Dóra Júlía og Bára gengu í það heilaga Blökastið hringir inn nýja árið með Nýársbingó Viðtöl ársins 2024: Óvænt andlát, ófrjósemi og flutningar til Bandaríkjanna Margmenni í Bláfjöllum Andrew Garfield á Íslandi Katrín Tanja trúlofuð Steven og Guðný Ósk eru nýtt par Fræga fólkið streymdi á hápunkt ársins í Þjóðleikhúsinu Sjáðu Sandler snúa aftur sem Happy Gilmore í nýrri kitlu Björn Ingi leikur í ofurhetjumynd Eiga nú glöðustu hunda í heimi Lést eftir að hafa fallið úr bíl á ferð Brúðkaup ársins 2024 Bestu, stærstu, slökustu og verstu myndir ársins 2024 Króli trúlofaður Jólagjafir íslenskra vinnustaða Jólagjöf ársins er stóllinn sem getur allt nema flogið Besta jólagjöfin að sjá bata foreldranna Sjá meira