Lífið

Örn segist ánægður með uppfærsluna

Gunnþóra Gunnarsdóttir skrifar
"Ég er búinn að halda upp á afmælið með fullt af fólki sem ég þekki og það er gaman að halda líka upp á það með fólki sem ég þekki ekki neitt,“ segir Örn.
"Ég er búinn að halda upp á afmælið með fullt af fólki sem ég þekki og það er gaman að halda líka upp á það með fólki sem ég þekki ekki neitt,“ segir Örn. FBL/EYÞÓR
„Ég er hér að keyra yfir Þverárfjall, á leið á Sauðárkrók,“ svarar Örn Árnason leikari glaðlega þegar hann er spurður hvar verið sé að ónáða hann með símhringingu.

Erindið við Örn er að falast eftir afmælisviðtali því kappinn er sextugur á útgáfudegi þessa tölublaðs. Hann kveðst vera á ferð með fimmtán útlendinga í hálfri hringferð um landið svo að næsta spurning er hvort hann ætli að halda upp á afmælið sitt með þeim.

„Já, það ætla ég að gera. Ég er búinn að halda upp á afmælið með fullt af fólki sem ég þekki og það er gaman að halda líka upp á það með fólki sem ég þekki ekki neitt!“ svarar hann að bragði.

Örn kveðst taka að sér leiðsögn fyrir hópa sem komi hingað gegnum ameríska skrifstofu með aðsetur hér á landi.

„Við erum sem sagt á leið á Krókinn núna að heimsækja Sútarann, svo förum við til Akureyrar í kvöld.“

Ekki kveðst hann ná að heimsækja Hrísey í þessari ferð, þótt hann hafi oft verið í eyjunni sem krakki og gjarnan komið þar við í gegnum tíðina. „En ég fer á Dalvík svo ég næ að sigla fram hjá.“

Örn segist meðal annars ætla að verja afmælisdeginum við Mývatn og segir það nú ekki slæmt, þrátt fyrir að kuldatíð sé fyrir norðan núna. „Það er þriggja stiga hiti hér á Þverárfjallinu,“ upplýsir hann.

En Örn er sem sagt búinn að fagna sextugsafmælinu og kveðst algerlega sáttur við aldurinn.

„Ég er ánægður með það að hafa fengið uppfærslu úr 5.9 í 6.0, eins og talað er um í hinum stafræna tölvuheimi! Það er einhvers virði,“ segir Örn Árnason.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.