Fótbolti

"Ég er heimsmeistari í undanúrslitaleikjum“

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
Jurgen Klopp hefur ekki áhyggjur af slæmu gengi í úrslitaleikjum
Jurgen Klopp hefur ekki áhyggjur af slæmu gengi í úrslitaleikjum vísir/Getty
Jurgen Klopp segir það ekki vera sér að kenna að hann hafi tapað síðustu sex úrslitaleikjum sem lið hans hafa tekið þátt í.

Klopp hefur enn ekki náð að vinna titil með Liverpool og þá tapaði hann nokkrum úrslitaleikjum með Borussia Dortmund. Síðasti úrslitaleikur sem tapaðist var úrslitaleikur Meistaradeildarinnar fyrir ári síðan þegar Liverpool tapaði fyrir Real Madrid.

Í kvöld mætir Liverpool Tottenham í úrslitaleiknum í Madríd.

„Ef ég væri ástæðan fyrir því að sex síðustu úrslitaleikir hafi tapast þá þyrftu allir að hafa áhyggjur. En ef það er ekki ástæðan þá eigum við alltaf möguleika og þannig lítum við á þetta,“ sagði Klopp á síðasta blaðamannafundi sínum fyrir úrslitaleikinn.

„Síðan árið 2012, fyrir utan 2017, þá hef ég komið liði í úrslitaleik. Stundum komumst við þangað á heppni, en oftast af því að við þurftum að fara þangað, svo eins og er er ég líklega með heimsmetið í að vinna undanúrslitaleiki.“

„Ég er mannlegur svo ef að ég sæti og hugsaði að þetta væri allt mér að kenna, þá værum við í vanda. En ég sé þetta ekki svona.“

Liverpool fer inn í þennan úrslitaleik sem sigurstranglegra liðið, en Tottenham hefur aldrei spilað úrslitaleik Meistaradeildarinnar áður.

Leikurinn í kvöld verður í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport og hefst upphitun klukkan 18:15. Þá verður hægt að sjá leikinn í ofurháskerpu á Stöð 2 Sport UHD.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×