Innlent

Jason Momoa lætur skip­verjana á Bílds­ey heyra það

Sylvía Hall skrifar
Leikarinn er vægast sagt ósáttur við framferði skipverjanna.
Leikarinn er vægast sagt ósáttur við framferði skipverjanna. Vísir/Getty
Game of Thrones leikarinn Jason Momoa er harðorður í garð skipverjanna á bátnum Bíldsey SH-65 en myndband af þeim skera sporð af hákarli fór í mikla dreifingu í síðustu viku. Hákarlinn virðist hafa flækst í línunni og brugðu skipverjarnir á það ráð að skera af honum sporðinn en myndbandinu var deilt af skipverjunum sjálfum.

Sjá einnig: Skáru sporðinn af hákarli og birtu myndband á netinu

„Það er glatað að sjá að þið eruð örugglega góðir menn, vinir og feður en þið gerðuð þetta. Líf ykkar mun breytast að eilífu, ég hef aldrei séð neitt svona grimmt. Hláturinn ykkar gerir mig brjálaðan, ég hef aldrei viljað meiða manneskju jafn mikið og þegar ég heyrði hláturinn ykkar og hvað þið sögðuð,“ skrifaði Momoa við færsluna.

Hann segir að skipverjarnir munu fá þetta í bakið. Allir geri mistök en þetta sé einfaldlega merki um hreinræktaða illsku.





Mennirnir eru nafngreindir í færslu leikarans og birtir hann einnig skjáskot af Facebook-prófílum þeirra. Þá hafa margir tekið undir orð hans í athugasemdakerfinu. Þegar þetta er skrifað höfðu rúmlega 225 þúsund manns sett „like“ við færsluna á aðeins 43 mínútum. Fyrr í dag hafði hann einnig vakið athygli á atvikinu þar sem hann sagðist vera miður sín og hann myndi gera allt til þess að „ná þessum fávitum“.

„Vinsamlegast deilið þessu til þess að við náum þessum fíflum,“ skrifaði leikarinn.





Viðbrögðin voru einnig mikil hjá fólki hérlendis eftir að myndbandið fór í dreifingu og sökuðu margir þá um dýraníð og skepnuskap. Færðu skipverjarnir þau rök fyrir því að hákarlinn hefði aldrei haldið lífi hvort eð er og því hefði engu máli skipt þótt sporðurinn væri skorinn af.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×