Fótbolti

Svona fór Liverpool í úrslitaleikinn: Mané í München, Origi og kraftaverkið á Anfield | Myndband

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Origi fagnar markinu sem tryggði Liverpool sæti í úrslitaleik Meistaradeildarinnar.
Origi fagnar markinu sem tryggði Liverpool sæti í úrslitaleik Meistaradeildarinnar. vísir/getty
Liverpool fær tækifæri til að vinna Meistaradeild Evrópu í sjötta sinn þegar liðið mætir Tottenham í úrslitaleik keppninnar annað kvöld. Úrslitaleikurinn fer fram á Wanda Metropolitano, heimavelli Atlético Madrid.

Þetta er annað árið í röð sem Liverpool kemst í úrslit Meistaradeildarinnar. Í fyrra tapaði liðið fyrir Real Madrid, 3-1, úrslitaleiknum í Kænugarði.

Liverpool endaði í 2. sæti C-riðils og tryggði sér sæti í 16-liða úrslitunum með sigri á Napoli, 1-0, á Anfield í lokaumferð riðlakeppninnar.

Mané skorar gegn Bayern München á Allianz Arena.vísir/getty
Í 16-liða úrslitunum mætti Liverpool Þýskalandsmeisturum Bayern München. Fyrri leiknum á Anfield lauk með markalausu jafntefli en Liverpool vann þann seinni á Allianz Arena, 1-3. Sadio Mané skoraði tvö marka Liverpool í leiknum. Hann hefur skorað fjögur mörk fyrir Liverpool í Meistaradeildinni í vetur líkt og Mohamed Salah og Roberto Firmino.

Liverpool átti ekki í miklum erfiðleikum með að slá Porto úr leik í 8-liða úrslitunum. Rauði herinn vann einvígið, 6-1 samanlagt.

Í undanúrslitunum fékk Liverpool öllu erfiðara verkefni gegn Spánarmeisturum Barcelona.

Þrátt fyrir fína spilamennsku í fyrri leiknum á Nývangi tapaði Liverpool, 3-0. Brekkan fyrir seinni leikinn á Anfield var því ansi brött auk þess sem Salah og Firmino voru fjarri góðu gamni vegna meiðsla.

Liverpool var í afar erfiðri stöðu eftir tapið fyrir Barcelona á Nývangi.vísir/getty
En þegar neyðin er stærst er Divock Origi næst. Hann kom Liverpool yfir á 7. mínútu og staðan var 1-0 í hálfleik. Varamaðurinn Georginio Wijnaldum skoraði tvö mörk í upphafi seinni hálfleiks og jafnaði einvígið, 3-3.

Þegar ellefu mínútur voru eftir af leiknum skoraði Origi svo markið sem tryggði Liverpool farseðilinn í úrslitaleikinn og kórónaði ótrúlega endurkomu Rauða hersins.

Öll 22 mörkin sem Liverpool hefur skorað í Meistaradeildinni í vetur má sjá hér fyrir neðan. Smella þarf á myndbandið til að horfa á YouTube.






Tengdar fréttir

Klopp skaut fast á Guardiola

Stjórar bestu liðanna á Englandi, Pep Guardiola og Jürgen Klopp, eru í léttu sálfræðistríði sín í milli sem er ekkert að taka enda.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×