Innlent

Þrír álftarungar á Árbæjarlóni

Kristján Már Unnarsson skrifar
Áftarparið í dag með ungana sína þrjá.
Áftarparið í dag með ungana sína þrjá. Vísir/KMU.
Íbúar hverfanna við Elliðaárdal, sem reglulega ganga um dalinn, fylgjast jafnan spenntir með varpi álftarparsins við Árbæjarlón á vorin og í sumarbyrjun, hvort og hve margir ungar skríða úr hreiðrinu. Parið er núna búið að frumsýna afkomendur þessa árs; þrír ungar hafa sést synda með foreldrunum um lónið. 

Álftarhreiðrið er í Blásteinshólma skammt ofan Árbæjarstíflu. Þar nýtur það náttúrulegrar varnar Elliðaánna, sem umlykja hólmann. Þar er af þeim sökum sennilega eitt fjölskrúðugasta fuglavarp Reykjavíkursvæðisins; með gæsum, öndum og mófuglum. 

Íbúðarhúsin í Hólahverfi rétt ná að teygja sig upp úr skógarsal Elliðaárdals. Álftarhreiðrið er í grennd við tvö af fjölmennustu hverfum borgarinnar, Breiðholt og Árbæ.Vísir/KMU.
Álftin á Árbæjarlóni hefur þó oft verið frjósamari en í ár. Þannig hafa sum árin sést fimm og jafnvel sex ungar komast úr hreiðrinu. Þá er óvíst að þeir lifi allir af sumarið. Í fyrra gerðist það til dæmis að það fækkaði um einn í ungahópnum þegar leið á sumarið. 

Álftarparið helgar sér stórt svæði og rekur með grimmd aðrar álftir burt, en einnig gæsir, sem gerast of nærgöngular. 

„Það er alveg einstakt í borginni að hafa álftina í svona návígi. Þetta eru glæsilegir fuglar og vonandi njóta flestir borgarbúar þess að koma í Elliðaárdalinn,” sagði fuglafræðingurinn Ólafur Einarsson í viðtali í frétt Stöðvar 2 fyrir þremur árum, sem sjá má hér:

 


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×