Skoðun

Er allt samkvæmt áætlun hjá RÚV?

Ívar Halldórsson skrifar
Ef það er orðin einskonar baktjaldastefna RÚV að nota skattpeninga almennings til að útvarpa eða sjónvarpa persónulegri afstöðu starfsmanna þessarar sameignar til umdeildra hitamála, án tillits til regluverka og í óþökk almennings, þá þarf að endurskoða rekstrargrundvöll þessa ríkisfyrirtækis sem starfar undir þeim formerkjum að vera útvarp allra landsmanna.

Þrátt fyrir opinberar yfirlýsingar fjöllistaflokksins Hatara um að hann hygðist misnota aðstöðu sína í Söngvakeppni evrópskra sjónvarpsstöðva til að senda pólitísk skilaboð til gestgjafa keppninnar í ár, og þrátt fyrir áhyggjuraddir úr þjóðfélaginu og opið bréf mitt til útvarpsstjóra, ákvað RÚV allra landsmanna þó engu að síður að leiða allar aðvaranir og vísbendingar um vanefndir við keppnina hjá sér og senda þessa pólitísku tónlistartímasprengju til Ísrael fyrir okkar hönd. Sú staða sem ég varaði við í mínu opna bréfi til útvarpsstjóra fyrir nokkrum vikum síðan er nú komin upp - og samt segjast menn ekki hafa búist við þeim viðbrögðum sem við fengum frá alþjóðasamfélaginu.

Fjöldi fólks um alla Evrópu og víðar hefur nú tjáð andúð sína á uppátækinu með fánann. Undirskriftalisti er nú kominn af stað með það að marki að meina Íslendingum þátttöku í Eurovision í Hollandi á næsta ári. Nálgast fjöldi undirritaðra 15.000 manns þegar þetta er skrifað. Ef áætlunin var alltaf sú að sniðganga keppnina í Hollandi að ári, misbjóða og móðga almenning, minnka traust skattgreiðenda á þessari ríkisreknu stofnun allra landsmanna og vera Íslandi til skammar - þá virðist allt enn vera samkvæmt áætlun.

Hins vegar ef ætlunin var að vekja reiði almennings í garð Ísrael þá finnst manni sú áætlun hafa farið úrskeiðis. Sú sprengja sprakk beint í andlitið á okkur öllum því að við erum nú í óða önn að uppskera reiði þúsunda gagnvart okkar eigin þjóð. Þá tek ég í sama streng og margir opinberir stuðningsmenn Palestínu víða, að betra hefði verið að sniðganga keppnina með öllu. Þótt að sá kostur að sniðganga keppnina hafi persónulega verið mér á móti skapi hefði það alla vega verið heiðarlegra og þannig hefðu engar reglur verið brotnar.

Það kemur skýrt fram í reglum keppninnar að umsjónarfjölmiðill hvers lands skuli tryggja að keppendur hafi ekki í frammi pólitískan áróður og verði ekki á neinn hátt keppninni til skammar. Það hefur þó margsinnis komið fram að ábyrgðarmenn á vegum RÚV vissu að fjöllistahópurinn ætlaði að misnota aðstæður sínar. Gísli Marteinn viðurkenndi meira að segja að hann hefði verið viðbúinn enn verra atriði. RÚV vissi hvert stefndi en ákvað engu að síður að virða reglur keppninnar að vettugi.

Það er allt sem bendir til að RÚV hafi vísvitandi brotið reglur án tillits til íslensks almennings til að koma umdeildum pólitískum skoðunum á framfæri. Maður sér á logandi samskiptakerfunum að fjölmargir eru á þessari skoðun og mörgum er meira að segja það misboðið að þeir eru farnir að tala um að kæra RÚV fyrir athæfið.

RÚV þarf því að taka fulla ábyrgð á framkomu Hatara og þeirri stöðu sem upp er komin. Það er við hæfi að RÚV biðji ESC, gestgjafa keppninnar í ár og almenning opinberlega afsökunar á því að hafa misnotað aðstöðu sína sem ríkisfjölmiðill og að hafa ekki gripið inn í um leið og ljóst var hvert stefndi.

Ef innlendir listamenn sem deila viðhorfi þeirra sem stjórna RÚV hafa leyfi til að sniðganga reglur, bregðast trúnaði, sveigja hjá góðu siðferði og misnota ríkisfjölmiðil allra landsmanna til að ögra, særa, misbjóða og móðga friðelskandi fólk af ýmsum uppruna, þ.á.m. gyðinga sem búsettir eru bæði hérlendis og erlendis, þá erum við á alvarlegum stað í alþjóðarými nútímans þar sem kærleikur á að ríkja og kynþáttahatur má ekki sigra.

Sem skattgreiðandi og um leið meðeigandi í þessari ríkisstofnun tek ég skýrt fram að ég hef ekki veitt RÚV umboð til þess að nota dagskrárvald sitt til að upphefja eigin skoðanir, persónulegar skoðanir starfsmanna sinna eða skjólstæðinga á umdeildum hitamálum þar sem skoðanir almennings eru gjarna mjög skiptar, á minn minn fjárhagslega eða siðferðislega kostnað.

Ég vil að Ísland sé þekkt fyrir frábært íþróttafólk, fallegt land, lopapeysur, fjölbreytileika, skyr og vinalegt fólk sem talar fallega um og tekur vel á móti öllum kynþáttum og kynhneigðum; ekki fyrir virðingarleysi, dónaskap og gyðingahatur sem nú er því miður raunin.

Höfundur er útvarpsmaður.




Skoðun

Skoðun

BRCA

Elín Íris Fanndal Jónasdóttir skrifar

Sjá meira


×