Íslenski boltinn

Helgi: Þurfum að fara að ranka við okkur

Smári Jökull Jónsson skrifar
Helgi Sigurðsson
Helgi Sigurðsson vísir/bára
„Þetta var mjög svekkjandi, að fá mark á sig aftur úr föstu leikatriði er ekki nógu gott hjá okkur. Leikurinn var mestmegnis jafn og bæði lið að gefa allt í þetta, mikil barátta og læti og ekki mikið um færi. Súrt að fá á sig mark í lokin,“ sagði Helgi Sigurðsson þjálfari Fylkis eftir leikinn gegn Grindavík í kvöld.

Rétt áður en Grindvíkingar komust yfir hafði Helgi skipt um menn í sókninni og sett Geoffrey Castillion inná sem byrjaði á bekknum í kvöld.

„Við ætluðum að sækja til sigurs en við breyttum ekki það miklu, settum framherja fyrir framherja. Við þurfum auðvitað bara að dekka í föstum leikatriðum og þetta er hlutur sem þarf að vera í lagi að vera með einbeitingu í 90 mínútur. Það er ekki nóg að vera með það í 89 og okkur er refsað grimmilega fyrir svona mistök,“ bætti Helgi við en Fylkismenn eru án sigurs í síðustu fjórum leikjum.

„Það er nóg eftir af þessu móti en við þurfum að fara að ranka við okkur. Mér fannst frammistaðan verðskulda eitt stig að lágmarki. Maður getur verðskuldað og verðskuldað ekki, við áttum að fá fleiri stig gegn Val síðast en fengum ekkert. Þetta er bara spurning um einbeitingu og nýta færin þegar þau koma.“

Helgi er þó ekkert farinn að örvænta þrátt fyrir magra stigasöfnun undanfarið.

„Ég hef ekkert áhyggjur af leik liðsins, við höfum ekki fengið á okkur mark úr opnum leik og liðin eru ekki að skapa mikið af færum á okkur. Ég hef smá áhyggjur af því að við séum ekki að skora nóg af mörkum og það er eitthvað sem við þurfum að finna svör við. Að öðru leyti er þetta jafnt mót og það er nóg eftir.“


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×