Skoðun

Stækkum þar sem allt er að stækka!

Áslaug Hulda Jónsdóttir og skrifa
Garðabær er að stækka. Kópavogur er að stækka. Hafnarfjörður er að stækka. Mikil uppbygging og fjölgun íbúa hefur verið hjá þessum sveitarfélögum á höfuðborgarsvæðinu og fram undan er enn frekari uppbygging í Garðabæ. Framhaldsskólarnir á þessu svæði stækka samt ekki neitt. Og rætt er um að stýra aukinni umferð á álagstímum frá miðbænum. Ungt fólk er hvatt til þess að velja sér list- og verknám og eftirspurn eftir námi í list- og verknámi eykst. Samt eykst framboð á list- og verknámi ekki neitt.

Fjölbrautaskólinn í Garðabæ var byggður fyrir 500 nemendur en hýsir nú 700. Skólinn er með vinsælli framhaldsskólum landsins. Vinsældir FG liggja ekki síst í því fjölbreytta námsvali sem þar er í boði. Auk hefðbundinna bóknámsbrauta býður skólinn upp á fjölbreytt listnám, íþróttabraut og hönnunar- og markaðsbraut. Vinsældir listnáms hafa stóraukist og í dag er listnámsbrautin stærsta og eftirsóttasta braut skólans. En þar liggur líka vandinn. Húsnæðið er of lítið og þó kennarar vinni afrek á hverjum degi þarf skólinn verulega á stækkun að halda.

Við erum klár!

Þetta er ekki nýtt vandamál, það hefur bara stækkað. Hér er þó allt klárt, teikningar að viðbyggingu eru til en árið 2007 var sett á laggirnar bygginganefnd sem undirbjó að reisa viðbygginu við skólann. Ekkert hefur þó gerst og það er svo langt síðan að börn sem voru þriggja ára árið sem bygginganefndin tók til starfa fara í framhaldsskóla á næsta ári. Það er því galið að dusta ekki rykið af þessum teikningum og láta hendur standa fram úr ermum.

Ekki stendur á bæjaryfirvöldum í Garðabæ og ekki heldur stjórnendum og starfsfólki Fjölbrautaskólans í Garðabæ. Við bíðum eftir yfirvöldum menntamála.

Höfundur er formaður bæjarráðs Garðabæjar og skólanefndar FG




Skoðun

Skoðun

BRCA

Elín Íris Fanndal Jónasdóttir skrifar

Sjá meira


×