Fótbolti

Komið að ögurstundu hjá Rúnari Alex og félögum í fallbaráttunni

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Rúnar Alex og ofurstjarnan Kylian Mbappé.
Rúnar Alex og ofurstjarnan Kylian Mbappé. vísir/getty
Rúnar Alex Rúnarsson og félagar í Dijon róa lífróður í fallbaráttu frönsku úrvalsdeildarinnar sem lýkur í kvöld.

Í lokaumferðinni tekur Dijon á móti Toulouse. Dijon er í nítjánda og næstneðsta sæti deildarinnar með 31 stig, tveimur stigum á eftir Caen sem er í sætinu fyrir ofan.

Guingamp er þegar fallið og liðið í 19. sæti fylgir þeim niður í B-deildina. Liðið sem endar í 18. sæti mætir hins vegar Troyes eða Lens í tveimur umspilsleikjum um sæti í frönsku úrvalsdeildinni.

Til að komast í umspilið þarf Dijon að vinna Toulouse og treysta á að Bordeaux vinni Caen á sama tíma. Ef Dijon vinnur og Caen gerir jafntefli verða liðin jöfn að stigum. Caen verður þó alltaf fyrir ofan Dijon sökum betri markatölu. Caen er með 24 mörk í mínus en Dijon 30.

Rúnar Alex kom til Dijon frá Nordsjælland fyrir tímabilið. Hann hefur leikið 24 af 37 deildarleikjum Dijon í vetur.

Það eina sem er óráðið í frönsku úrvalsdeildinni er hvaða lið falla. Paris Saint-Germain er löngu búið að tryggja sér meistaratitilinn og Lille og Lyon fylgja liðinu í Meistaradeild Evrópu á næsta tímabili. Saint-Étienne, Rennes og Strasbourg fara í Evrópudeildina.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×