Erlent

Fimm fyrrverandi prestar ákærðir fyrir kynferðisbrot í Michigan

Dana Nessel, dómsmálaráðherra Michigan.
Dana Nessel, dómsmálaráðherra Michigan. Vísir/Getty
Saksóknarar í Michigan í Bandaríkjunum hafa ákært fimm fyrrverandi presta kaþólsku kirkjunnar fyrir kynferðisbrot. Ákærurnar eru til komnar vegna umfangsmiklar rannsóknar á meintum kynferðisbrotum presta í ríkinu en fjórir þeirra hafa verið handteknir víðs vegar um Bandaríkin. Sá fimmti er í Indlandi og hafa Bandaríkin farið fram á að hann verði framseldur.

Dana Nessel, dómsmálaráðherra Michigan, segir suma prestanna hafa níðst á ungum börnum og viðkvæmu fullorðnu fólki. Þeir hafi falið brot sín í allra augsýn, með því að brjóta af sér við störf þeirra í kirkjum.

„Í dag, byrjum við að draga þessa presta til ábyrgðar,“ sagði Nessel í tilkynningu samkvæmt CNN.



Saksóknarar í Michigan hafa um nokkuð skeið verið að rannsaka grun um kynferðisbrot í sjö biskupsdæmum í ríkinu. Í október voru gerðar húsleitir á skrifstofum kirkjunnar og hald lagt á gífurlegt magn skjala. Frá byrjun ársins hafa rannsakendum borist um 400 ábendingar um mögulega kynferðisbrot presta. Biskupsdæmum hefur verið gert að binda enda á innri rannsóknir kirkjunnar á meðan rannsókn yfirvalda stendur yfir.

Nessel segir að málin gegn flestum prestanna fimm eigi uppruna sinn í ábendingarsíma Dómsmálaráðuneytis Michigan en gögn sem fundust á skrifstofum biskupsdæma hafi stutt við frásagnir af brotum prestanna.

Rannsóknin í Michigan er liður í umfangsmikilli alríkisrannsókn og tengist öðrum rannsóknum sem teygja anga sína víða um Bandaríkin. Rætur þeirra rannsókna má rekja til skýrslu frá Pennsylvaniu sem opinberuð var í fyrra þar sem því var haldið fram að rúmlega 300 prestar hefðu brotið gegn minnst þúsund börnum í sex biskupsdæmum frá 1947.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×