Lífið

Leikarar urðu ekki varir við parið á perunni í Borgarleikhúsinu

Hallgerður Kolbrún E Jónsdóttir skrifar
Hjörtur Jóhann og Kristín Þóra í hlutverkum sínum í Sýningunni sem klikkar.
Hjörtur Jóhann og Kristín Þóra í hlutverkum sínum í Sýningunni sem klikkar. GRÍMUR BJARNASON
Dauðadrukknu pari var vísað út af leiksýningunni „Sýningin sem klikkar“ í Borgarleikhúsinu í gærkvöldi. RÚV greindi frá atvikinu í morgun.

Parið sat utarlega á 14. bekk og hélt konan á bjórglasi og hellti yfir sessunaut sinn en karlinn sofnaði í sætinu við hliðina á henni. Gestir í kringum parið héldu að þau væru hluti af sýningunni, sem er farsi, þar sem allt í henni klikkar sem mögulega getur það.

Fljótlega kom öðrum leikhúsgestum hins vegar í ljós að ekki væri allt eins og það átti að vera, þar sem karlinn vaknaði úr djúpum svefni og kastaði upp. Þó létu nærstaddir við sitja en gamanið fór heldur að grána þegar parið fór að sýna tilburði til ástarlota.

Gestur á bekk fyrir framan parið fór þá og tilkynnti húsvörðum hvað væri á seiði og þeir vísuðu parinu út tafarlaust, sem gekk átakalaust.

Í samtali við fréttastofu sagði Bergur Þór Ingólfsson, leikari í sýningunni, að leikarahópurinn hafi ekkert orðið var við ævintýri parsins á 14. bekk. Umræða hafi þó myndast eftir að fréttin um atburðinn birtist á vef Ríkisútvarpsins.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.