Erlent

Aukinn stuðningur við þungunarrof

Lovísa Arnardóttir skrifar
Frá mótmælum við nýrri löggjöf um þungunarrof í Georgíu á laugardag.
Frá mótmælum við nýrri löggjöf um þungunarrof í Georgíu á laugardag. Nordicphotos/Getty Images
Aukinn stuðningur mælist í Banda­ríkjunum við að heimila þungunar­rof á sama tíma og æ fleiri ríki sem stjórnað er af Repúbli­könum herða sína lög­gjöf, eða jafnvel banna þungunarrof í öllum tilvikum. Niður­stöður nýrrar könnunar Reu­ters og Ipsos voru birtar í gær.

Sam­kvæmt niður­stöðunni eru 58 prósent Banda­ríkja­manna sam­mála því að þungunar­rof eigi að vera heimilt í nærri öllum til­vikum. Hlut­fallið hefur hækkað um 8 prósent frá því í sömu könnun sem fram­kvæmd var ári áður.

Stuðningur var þó mjög ó­líkur eftir því hvaða flokk fólk styður. Um 81 prósent Demó­krata var sam­mála að heimila ætti þungunar­rof í nærri öllum til­vikum, á meðan 55 prósent Repúblikana sögðu að þungunar­rof ætti að vera bannað í nærri öllum til­vikum.

Á þessu ári hafa alls átta ríki sem stjórnað er af Repúbli­könum leitt í lög ein­hvers konar tak­markanir á þungunar­rofi. Í Ala­bama hefur þungunar­rof verið bannað í öllum til­vikum, í Ohio og Georgíu er það heimilt til 6. viku, en svo að­eins í neyð.

Talið er að nýta eigi breytingarnar til að fá Hæsta­rétt Banda­ríkjanna til að endur­skoða dóm sinn frá árinu 1973 þar stað­festur var sjálfs­á­kvörðunar­réttur kvenna til að rjúfa þungun. Þeir sem eru á móti þungunar­rofi telja að með nýjum í­halds­sömum meiri­hluta réttarins, í kjöl­far skipunar Donalds Trump á tveimur dómurum, verði hægt að snúa dómnum.

Mikill meiri­hluti Banda­ríkja­manna er sam­kvæmt niður­stöðum könnunarinnar ekki sam­mála því að það eigi að banna þungunar­rof í öllum til­vikum, en sem dæmi sögðust 80 prósent styðja að­gerðina ef þungun væri af völdum nauðgunar eða kynferðislegrar misnotkunar. Þá sögðust 85 prósent styðja þungunarrof þegar líf móðurinnar væri í hættu og 59 prósent þegar vís­bendingar værum um að barnið yrði and­lega eða líkam­lega fatlað.

58 prósent sögðu að þungunar­rof ætti ekki að vera heimilt eftir 20. viku meðgöngu, en 30 prósent sögðu að það ætti að vera heimilt.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×