Erlent

Fyrrverandi konungur Spánar dregur sig í hlé

Andri Eysteinsson skrifar
Jóhann Karl I. ásamt syni sínum Filippusi VI. Spánarkonungi
Jóhann Karl I. ásamt syni sínum Filippusi VI. Spánarkonungi Getty
Fyrrverandi konungur Spánar, Jóhann Karl I. hefur lýst því yfir að hann hyggist draga sig úr sviðsljósinu með öllu í byrjun júní, fimm árum eftir að hann afsalaði sér krúnunni. Frá þessu greindi hann í tilkynningu á vef spænska konungsembættisins. AP greinir frá.

Jóhann Karl I. tók við konungsembætti árið 1975 eftir andlát Francisco Franco og sat allt til ársins 2014 þegar hann afsalaði völdum til elsta sonar síns sem varð Filippus VI. Spánarkonungur.

Jóhann Karl sem fæddur er 1938 og varð því 81 árs fyrr á árinu hefur nú ákveðið að draga sig úr sviðsljósinu með öllu.

Konungurinn segist hafa farið að íhuga ákvörðunina þegar hann var heiðraður af spænska þinginu í fyrra þegar 40 ára afmæli spænsku stjórnarskrárinnar var fagnað.

Þrátt fyrir slæma heilsu konungs hafa árin eftir valdaskiptin verið annasöm en nú segir Jóhann Karl að tími sé kominn til að snúa blaðinu við og draga sig í hlé.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×