Erlent

Fjórir látnir eftir að flugvélar skullu saman í Alaska

Samúel Karl Ólason skrifar
Slasaður farþegi fluttur á sjúkrahús.
Slasaður farþegi fluttur á sjúkrahús. AP/Dustin Safranek
Minnst fjórir eru látnir eftir að tvær sjóflugvélar skullu saman á flugi í Alaska í gærkvöldi. Tveggja er saknað og tíu hafa verið fluttir á sjúkrahús. Enginn þeirra mun vera í alvarlegu ástandi. Báðar flugvélarnar voru notaðar í útsýnisflugi og varð slysið nærri bænum Katchikan.

Útsendarar rannsóknarnefndar samgönguslysa Bandaríkjanna eru nú á leið til Alaska og munu halda utan um rannsóknina á slysinu.



Samkvæmt AP fréttaveitunni liggur ekki fyrir við hvaða kringumstæður flugvélarnar skullu saman en þær báru að mestu farþegar úr skemmtiferðaskipi sem var við bryggju í Katchikan.

Verið var að fljúga vélunum aftur til bæjarins þegar þær skullu saman, samkvæmt CNN.



Fyrirtækið sem gerir út flugvélarnar hefur lýst því yfir að fleiri útsýnisflug verði ekki farin fyrr en rannsókn verði lokið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×