Skoðun

40 – 18

Ólöf Skaftadóttir skrifar
Þingmenn í Alabama í Bandaríkjunum hafa samþykkt nýtt frumvarp sem bannar þungunarrof nema þegar þarf að bjarga lífi konunnar. Á ferðinni er strangasta löggjöf í landinu í þessum efnum.

Konur sem verða þungaðar eftir nauðgun eða kynferðislega misnotkun ættingja eru neyddar til að fæða barnið. Læknirinn sem sýnir aðstæðum þeirra skilning og notar kunnáttu sína til að koma í veg fyrir fæðingu við ömurlegar aðstæður brýtur lög og getur átt yfir höfði sér 99 ára fangelsi. Skýrar línur í Alabama.

25 öldungadeildarþingmenn í ríkinu sögðu já við frumvarpinu á meðan sex sögðu nei.

Svokallaður Roe v. Wade dómur féll í hæstarétti Bandaríkjanna árið 1973. Hann leiddi fóstureyðingar í lög í öllum ríkjum Bandaríkjanna. Í málinu reyndi á hvort lög sem bönnuðu fóstureyðingar og voru sett af löggjafarþingi í Texas stæðust ákvæði í stjórnarskrá um friðhelgi einkalífs. Meirihluti hæstaréttar komst að þeirri niðurstöðu að svo væri ekki. Lögin skertu um of rétt kvenna til að gangast undir fóstureyðingu. Þessi dómur hefur verið umdeildur síðan hann féll og hefur reynst þrætuepli á milli frjálslyndra og íhaldsmanna í Bandaríkjunum svo áratugum skiptir.

Afturhaldið sigraði í Alabama í vikunni. Ef ríkisstjórinn, Kay Ivey, undirritar og staðfestir lögin fylla þau flokk 300 lagabálka sem vefengja rétt kvenna til þungunarrofs í Bandaríkjunum. Slík lög hafa verið innleidd í 16 af 50 ríkjum á þessu ári.

Sem betur fer eiga viðhorfin frá Alabama ekki upp á pallborðið hér heima. Afturhaldið laut í lægra haldi á íslenska þinginu í vikunni. Á meðan félagar okkar vestanhafs grafa undan mannréttindum, líkt og þeirri sjálfsögðu kröfu kvenna að ráða yfir eigin líkama, var ein framsæknasta löggjöf um þungunarrof sem til er samþykkt á Alþingi. Fjörutíu þingmenn greiddu frumvarpinu atkvæði sitt, en 18 voru á móti.

Fjórða grein frumvarpsins, sem mælir fyrir um heimild konu til að rjúfa þungun til loka 22. viku, virtist einna helst vefjast fyrir andstæðingum frumvarpsins. 96 prósent þungunarrofa fara fram fyrir tólftu viku meðgöngu, þrjú prósent fyrir sextándu viku og aðeins eitt prósent eftir þann tíma. Deilt er um örfá tilvik. Fullyrða má að engri konu er léttvæg ákvörðun að fara seint í þungunarrof. En staðreyndin er sú að framkvæmdin er við sama tímamark með nýrri löggjöf, en konan tekur ákvörðunina sjálf, í stað nefndar embættismanna.

Mikilvægasta skref sem hefur verið stigið í kvenfrelsisbaráttunni er réttur konu til að ráða yfir eigin líkama. Konur eru fullfærar um að gangast við þeirri ábyrgð, í orði og á borði.

„Hennar líf, hennar líkami, hennar ákvörðun,“ líkt og einn þingmaður komst svo vel að orði.

40 – 18.




Skoðun

Skoðun

BRCA

Elín Íris Fanndal Jónasdóttir skrifar

Sjá meira


×