Íslenski boltinn

Pedro: Sami dómari og gaf okkur ekki víti í fyrsta leiknum

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Pedro og hans menn eru á botni Pepsi Max-deildar karla með eitt stig eftir fjórar umferðir.
Pedro og hans menn eru á botni Pepsi Max-deildar karla með eitt stig eftir fjórar umferðir. vísir/bára
„Þetta var erfiður leikur. Við byrjuðum vel og áttum fyrsta færið. En svo fengum við á okkur mark eftir fyrstu hornspyrnu HK,“ sagði Pedro Hipolito, þjálfari ÍBV, eftir tapið fyrir HK, 2-0, í Kórnum í kvöld.

Eyjamenn lentu undir á 14. mínútu þegar Birkir Valur Jónsson skoraði eftir hornspyrnu. Fjórtán mínútum síðar fékk Guðmundur Magnússon rautt spjald.

„Við brugðumst ágætlega við en síðan fékk Gummi rautt. Frá bekknum séð virtist hann fara í boltann. Eftir það var þetta erfitt og enn erfiðara eftir annað mark HK,“ sagði Pedro.

„Núna er auðvelt að gagnrýna en mér fannst strákarnir sýna vilja til að halda áfram og gefast ekki upp. Það sýndi að við höfum alvöru menn. Allir munu eflaust gagnrýna okkur. Það er eðlilegt og svona er boltinn. En strákarnir sýndu mikla liðsheild og þeir munu berjast allt til loka.“

Pedro fannst sínir menn vera sterkari aðilinn meðan það var jafnt í liðum.

„Við byrjuðum betur en HK en fengum á okkur heimskulegt mark. Við vitum að þeir framkvæma hornin alltaf svona. Við reyndum en þetta varð allt annar leikur eftir rauða spjaldið. Ég hef trú á strákunum þótt við séum ekki sáttir með byrjunina á tímabilinu,“ sagði Pedro en Eyjamenn hafa aðeins náð í eitt stig af tólf mögulegum í Pepsi Max-deildinni.

Eyjamenn sýndu ekki mikinn sóknarhug í seinni hálfleiknum en skoruðu þó mark sem fékk ekki að standa.

„Við skoruðum en markið var dæmt af vegna rangstöðu. Þetta er sami dómari [Egill Arnar Sigurþórsson] og gaf okkur ekki augljóst víti í stöðunni 0-0 í fyrsta leiknum okkar. Stundum er maður óheppinn. En stundum breytist það og gerir það líklega í næsta leik,“ sagði Pedro að lokum.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×