Viðskipti innlent

Tesla auglýsir fimm lausar stöður á Íslandi

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Rafbílaframleiðandinn Tesla hefur auglýst fimm stöður lausar til umsóknar hjá fyrirhugaðri verslun sinni í Reykjavík. Þessu vekur Jóhannes G. Ólafsson, formaður Rafbílasambands Íslands, athygli á í tilkynningu til fjölmiðla.

Á vefsíðu Tesla er auglýst eftir verslunarstjóra, sölumanni, tæknimanni og þjónustufulltrúa í fullt starf. Þá er einnig auglýst staða „vörusérfræðings“ (e. product specialist) í hlutastarfi. Umsækjendur geta sótt um í gegnum vefsíðuna og eru beðnir um að senda ferilskrá á ensku.

Áður hefur verið greint frá því að Tesla hyggist opna útibú í Reykjavík en Morgunblaðið sagði frá því í lok apríl að verslunin verði til húsa á Krókhálsi, þar sem Bílaumboðið Askja og Bílabúð Benna eru til húsa fyrir. Í tilkynningu frá Jóhannesi segir að ekki sé ljóst hvenær verslunin opni en undirbúningur sé í fullum gangi.

Þá var greint frá því í lok nóvember að Tesla hefði auglýst eftir umsóknum í stöðu tæknimanns á Íslandi. Áður hafði Elon Musk, stofnandi Tesla, lýst yfir eindregnum áhuga á því að opna útibú framleiðandans á Íslandi.


Tengdar fréttir

Tesla rannsakar sprengingu í Model S

Rafbílaframleiðandinn Tesla hefur sent rannsóknarteymi til Sjanghæ í Kína til þess að rannsaka ástæður þess að sprenging varð í kyrrstæðum bíl af gerð Model S í bílastæðahúsi á dögunum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×