Umfjöllun, viðtöl og einkunnir: Fylkir - ÍA 2-2 | Dramatískt jöfnunarmark bjargaði stigi fyrir ÍA

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Ólafur Ingi Skúlason er fyrirliði Fylkis.
Ólafur Ingi Skúlason er fyrirliði Fylkis. vísir/vilhelm
Fylkir trónir á toppi Pepsi Max-deildar karla, í sólarhring enn að minnsta kosti, eftir að liðið gerði 2-2 jafntefli við ÍA í Árbænum í kvöld.

Bæði lið eru með fjögur stig eftir fyrstu tvo leiki sína og buðu tæplega 1700 áhorfendum í blíðunni á Fylkisvelli upp á góða skemmtun.

Skagamenn byrjuðu leikinn af miklum krafti og uppskáru mark snemma leiks þegar Hörður Ingi Gunnarsson skoraði mark með föstu skoti utan teigs. Aron Snær Friðriksson í marki Fylkis var með hendi í boltanum en kom ekki vörnum við.

Nýliðarnir frá Akranesi eru með ungt og sprækt lið, sérstaklega í sóknarlínu sinni, og þeir settu mikla pressu á Fylkisliðið sem heimamenn réðu illa við framan af. Þeir gulu fengu nokkur færi til viðbótar og máttu Fylkismenn þakka fyrir að hanga inni í leiknum þennan fyrsta hálftíma.

Það komst aðeins meiri ró í Fylkisliðið á síðasta stundarfjórðung fyrri hálfleiks en vendipunktur leiksins kom snemma í þeim síðari er Einar Logi Einarsson varð fyrir því óláni að skora sjálfsmark og jafna leikinn fyrir Fylki. Einar Logi ætlaði að skalla hornspyrnu Daða Ólafssonar frá marki, einn og óvaldaður, en stýrði boltanum í eigið net.

Þessi gjöf færði Fylkismönnum þann kraft sem þeir þurftu til að taka yfir leikin, sem þeir gerðu í síðari hálfleik. Miðjumenn liðsins komust mun betur í takt við leikinn og heimamenn voru mun meira ógnandi eftir þetta. Geoffrey Castillion, sem hafði verið lítt áberandi í leiknum, fékk frábæra sendingu frá Sam Hewson inn í teig eftir laglegt uppspil heimamanna og afgreiddi knöttinn snyrtilega í netið.

Það gekk svo mikið á í uppbótartímanum. Skagamenn vildu fá víti eftir að boltinn fór í hendi Daða og höfðu þeir mikið til síns máls. En þeir héldu áfram að sækja stíft á mark heimamanna og kom jöfnunarmarkið á þriðju mínútu uppbótartíma er Óttar Bjarni Guðmundsson skoraði af stuttu færi í kjölfar hornspyrnu.

Af hverju varð jafntefli?

Liðin áttu hvort sinn hálfleikinn og niðurstaðan því nokkuð sanngjörn. Bæði lið náðu að sýna sínar bestu hliðar; Skagamenn voru léttleikandi og ógnandi í fyrri hálfleik en Fylksimenn yfirvegaðir og vel spilandi í þeim síðari.

Hverjir stóðu upp úr?

Daði Ólafsson og Sam Hewson voru bestu menn Fylkis í dag. Hewson átti frábæra stoðsendingu í síðara marki Fylkis sem lengi vel leit út fyrir að verða sigurmark leiksins. Stefán Teitur Þórðarson var öflugur á miðsvæði Skagamanna, grimmur og kraftmikill.

Hvað gekk illa?

Þegar Fylkir náði undirtökunum á miðjunni náðu Skagamenn lítið að gera með boltann. Það var ekki fyrr en í lok leiksins að þeir komu aftur með þá ákefð í sinn leik sem einkenndi liðið fyrstu 30 mínúturnar, en það er þó þeim til hróss að hafa ekki gefist upp.

Hvað gerist næst?

Skagamenn heimsækja Íslandsmeistara Vals í næstu umferð, á laugardaginn, en á sunnudag mæta Fylkismenn í heimsókn til KR-inga.

Jóhannes Karl er sáttur með stigin fjögur sem Skagamenn hafa náð í.vísir/anton
Jói Kalli: Sjálfsmarkið breytti leiknum

Jóhannes Karl Guðjónsson, þjálfari ÍA, var vitaskuld ánægður með að hafa fengið eitt stig úr leiknum gegn Fylki í dag en hefði viljað fá meira.

„Úr því sem komið var er ég ánægður með þetta stig. Við fórnuðum ýmsu úr varnarleiknum til að ná jöfnunarmarkinu og það hafðist að lokum,“ sagði Jóhannes Karl sem var þó ekki fyllilega sáttur við leikinn.

„Markið sem við gefum Fylki kemur þeim inn í leikinn og gefur þeim sjálfstraust. Það var svolítið klaufalegt hjá okkar mönnum. En úr því sem komið var sýndu strákarnir frábæran karakter að koma til baka.“

ÍA byrjaði af krafti í leiknum en gaf eftir í síðari hálfleik. Jóhannes segir að sjálfsmarkið hafi breytt leiknum.

„Ég held að Fylkir hafi ekki átt skalla að marki eða unnið fast leikatriði í allan dag. Við unnum því miður þetta líka en settum boltann því miður í eigið mark. Svona lagað getur auðvitað komið fyrir.“

Hann segist hafa brugðið við með því að gera nokkrar breytingar á sínu liði.

„Það skiptir samt engu máli hvaða breytingar ég gerði sem þjálfari, heldur snýst þetta um það að strákarnir sýndu karakter til þess að keyra sig alla leið áfram og jafna leikinn.“

ÍA er nú með fjögur stig eftir fyrstu tvær umferðirnar og við það er þjálfarinn sáttur.

„Það er frábær byrjun hjá strákunum.“

Helgi var svekktur með að fá jöfnunarmark á sig undir lok leiksins.vísir
Helgi: Létum ákefð Skagamanna rota okkur

Helgi Sigurðsson, þjálfari Fylkis, var ánægður með margt hjá sínum mönnum þrátt fyrir slæma byrjun og jöfnunarmark ÍA í blálok leiksins.

„Já, auðvitað er maður svekktur eftir að hafa fengið mark á sig svona seint í leiknum en ég er mjög ánægður með seinni hálfleikinn hjá okkur,“ sagði Helgi en Skagamenn byrjuðu af miklum krafti í leiknum og komust yfir.

„Við létum ákefð Skagamanna rota okkur en komum okkur aftur inn í leikinn. Þegar við létum boltann ganga betur á milli manna og hreyfa okkur líka án bolta þá sýndum við hversu gott fótboltalið við erum með.“

Hann segir að það hafi verið nóg af svæði á milli lína hjá Skagamönnum sem var hægt að nýta sér. Þegar Fylkismenn gerðu það fór að ganga betur á miðsvæðinu.

„Við þurftum bara að þora að halda aðeins í boltann til að finna þessi svæði. Annars var þetta bara spurning um hugarfar og að ætla sér hlutina - það var það sem ég var að leggja áherslu á við strákana í hálfleik. Það tókst vel.“

Helgi hrósaði liði ÍA fyrir baráttuna og frammistöðuna í dag. „Heilt yfir voru þetta ef til vill sanngjörn úrslit þó svo að það svíði auðvitað að hafa fengið þetta mark á sig í lokin.“

Geoffrey Castillion kom Fylki 2-1 yfir í leiknum en Helgi var þá búinn að ákveða að skipta honum af velli - Hákon Ingi Jónsson var byrjaður að gera sig kláran.

„Þá vissi ég að hann myndi skora. Þegar hann sá að það átti að skipta honum af velli þá þurfti hann að drífa sig að skora,“ sagði Helgi og hló. „En það er gott fyrir hann að komast á blað hjá okkur enda frábær framherji.“

Arnar Már er reyndasti leikmaður ÍA.vísir/ernir
Arnar Már: Líður eins og ég er 25 ára

Arnar Már Guðjónsson var í baráttunni á miðju ÍA og vildi vitaskuld fá meira úr leiknum en eitt stig, þrátt fyrir að jöfnunarmark Skagamanna hafi komið í lok leiksins.

„Við hefðum átt að klára leikinn í fyrri hálfleik. En úr því sem komið var í lokin þá verðum við að þakka fyrir þetta stig,“ sagði Arnar sem hefur gengið í gegnum ýmislegt á ferli sínum með ÍA. Hann er þó með öfluga sóknarlínu fyrir framan sig sem er skipuð ungum og öflugum leikmönnum.

„Það er ansi þægilegt að spila með þessum strákum, ég get viðurkennt það. Kjarninn í þessum hópi eru ungir Skagamenn sem trúa á það sem Jói (þjálfari) er að gera.“

„Ég er að njóta mín í botn og þeir eru að draga mig með. Mér líður eins og að ég sé 25 ára,“ sagði Arnar og brosti.

Helgi Valur lék allan leikinn í kvöld.vísir
Helgi Valur: Við ætlumst til mikils af okkur

Helgi Valur Daníelsson átti góðan leik á miðju Fylkismanna í dag og átti lykilsendingu í aðdraganda síðara marks heimamanna. Leiknum lyktaði þó með 2-2 jafntefli.

„Þetta er hluti af fótboltanum. Auðvitað hefðum viljað vinna en við töpuðum þó ekki leiknum,“ sagði Helgi og bætti því við að hans menn hefðu byrjað illa í leiknum.

„En mér fannst stígandi í okkur allan leikinn. Okkur tókst að rúlla boltanum ágætlega í seinni hálfleik. Vissulega svekkjandi en þetta er bara einn leikur af mörgum og við höfum enn sjálfstraust og höldum áfram.“

ÍA pressaði stíft á varnar- og miðjumenn Fylkis í upphafi leiks og Helgi segir að það virðist sem að Fylkismenn hafi í fyrstu verið hræddir við þá pressu.

„Við vorum mikið að bomba boltanum fram og svo töpuðum við yfirleitt baráttunni um fyrsta boltann, til dæmis í skallaeinvígum. En við ákváðum að rúlla boltanum betur og við það féllu þeir til baka og við gátum spilað betur okkar á milli.“

Helgi segir að Fylkisliðið sé vel mannað og að útlitið sé bjart í Árbænum. „Við ætlumst til mikils af okkur og erum fullir sjálfstrausts.“

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira