Erlent

Fleiri hafa ekki greinst með mislinga í aldarfjórðung vestanhafs

Aðalheiður Ámundadóttir skrifar
Alex Azar heilbrigðisráðherra.
Alex Azar heilbrigðisráðherra. Getty/Alex Wong
„Sjúkdómar sem til eru bóluefni við eiga heima í sagnfræðibókum, ekki í neyðarmóttök­unum okkar,“ sagði Alex Azar, heilbrigðisráðherra Bandaríkjanna, á blaðamannafundi í vikunni vegna hertra ráðstafana þar vestanhafs til að stöðva útbreiðslu mislinga.

Minnst 704 hafa smitast af mislingum í Bandaríkjunum það sem af er þessu ári, samkvæmt nýrri skýrslu heilbrigðisyfirvalda landsins. Þetta eru fleiri smit en greinst hafa á ári síðastliðin 25 ár í Bandaríkjunum. Engin dauðsföll vegna mislinga hafa þó verið skráð á árinu.

Smit hefur greinst í 22 ríkjum Bandaríkjanna.

Í New York-borg, þar sem flest smit hafa verið greind, hefur verið ákveðið að setja á bólusetningarskyldu en yfir 500 af þeim rúmlega 700 sem greinst hafa með mislinga á árinu voru ekki bólusettir.

Yfirvöld hafa gripið til ýmissa aðgerða auk bólusetningarskyldu. Í einstaka sýslum eiga mislingasmitaðir yfir höfði sér háa sekt, hundsi þeir af ásettu ráði fyrirmæli um að halda sig fjarri opnum svæðum.

Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, hvatti fólk í gær til að láta bólusetja börnin sín og fékk lof frá heilbrigðisráðherra sínum fyrir breytt viðhorf til bólusetninga. Forsetinn lýsti efasemdum um bólusetningar í aðdraganda forsetakosninganna 2016 og tók undir kenningar um tengsl þeirra og einhverfu. Azar skýrði sinnaskipti forsetans þannig að skiptar skoðanir meðal sérfræðinga um efnið hafi nú verið til lykta leiddar, líkt og um nýlega uppgötvun væri að ræða.




Tengdar fréttir

Trump hvetur fólk til bólusetninga

Forseti Bandaríkjanna hafði áður sagt MMR-bóluefnið tengt einhverfu. Hugmyndin um að bóluefni gegn mislingum geti valdið einhverfu er afar lífseig en alröng. Mislingatilfelli í Bandaríkjunum ekki verið fleiri á þessari öld. Hlutfall bólusettra lækkar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×